Dómkirkjan

 

Aðventan setur mark sitt á götur og torg, ljós og hljómar aðventu og jóla hrífa unga sem aldna. Í Dómkirkjunni er boðið upp á guðsþjónustur, bænastundir og margvíslega viðburði, tónleika og samverur þar sem sálin fær næringu af boðskapnum um ljósið sem skín í myrkrinu og blessar líf og heim

Hinir árlegu kertaljósatónleikar „Mozart við kertaljós“ Camerarctica verða þriðjudagskvöldið, 22. desember kl. 21:00. Þykir mörgum ómissandi að koma úr miðri jólaösinni inn í kyrrðina og kertaljósin í rökkrinu og njóta ljúfrar tónlistar Mozarts.
Helgihald um jólin er með hefðbundnum hætti. Aftansöngurinn í Dómkirkjunni kl. 18 á aðfangadagskvöld lýkur upp hliðum hátíðarinnar fyir landsmönnum.
Þá verður heilagt þegar klukknahljómurinn úr turni Dómkirkjunnar berst yfir landið á öldum ljósvakans. Að þessu sinni prédikar sr. Sveinn Valgeirsson og séra Elínborg Sturludóttir þjónar fyrir altari. Matthías Harðarson dómorganisti, Dómkórinn. Jóhann Stefánsson og Sveinn Birkisson leika á trompeta.
Á jólanótt klukkan hálf tólf er miðnæturguðsþjónusta.
Þá verða lesnir og sungnir níu lestrar og sálmar. Guðsþjónustan á sér fyrirmynd í guðsþjónustu sem fram hefur farið í Kings College í Cambridge á Bretlandi óslitið frá 1918.
Á milli lestra syngur söfnuðurinn jólasálma. Séra Elínborg Sturludóttir og Matthías Harðarson dómorganisti leiða guðþjónustuna.
Á jóladag er hátíðarmessa kl. 11 þar sem biskup Islands, Guðrún Karls Helgadóttir prédikar. Á annan jóladag og sunnudaginn 28. desember eru messur kl. 11 og á gamlárskvöld er aftansöngur kl. 18, sr. Elínborg Sturludóttir, Dómkórinn, Matthías Harðarson og Dagbjört Andrésdóttir syngur einsöng.
Hátíðarmessa á nýjársdag kl. 11, þar sem biskup Íslands, Guðrún Karls Helgudóttir prédikar, sr. Elínborg Sturludóttir þjónar, Dómkórinn ,Matthías Harðarson og Baldvin Oddsson leikur á trompet.
Auk þessara athafna þá er dönsk jólamessa á aðfangadag kl. 14.00.
Dómkirkjan óskar öllum blessaðrar aðventu og gleðilegrar jólahátíðar.

Laufey Böðvarsdóttir, 21/12 2025 kl. 16.11

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS