Viltu vera vinur Dómkirkjunnar?
Dómkirkjan þessi fagra bygging er í hjarta borgarinnar, hún var vígð 1796 og á næsta ári eru því 230 ár frá vígslu hennar. Dómkirkjan er ekki einungis sóknarkirkja, heldur er hún kirkja biskups, Alþingis og með sérstökum hætti allrar þjóðarinnar. Þessi fallegi helgidómur er dýrmætt djásn sem tengist sterkt trú, sögu og menningu þjóðar okkar og mun gegna því hlutverki um ókomna tíð.
Dómkirkjusöfnuðurinn ber ábyrgð á rekstri og viðhaldi Dómkirkjunnar og Safnaðarheimilisins, Lækjargötu 14a, sem bæði eru friðuð hús og með merkustu og fegurstu byggingum borgarinnar.
Félagsgjöld sóknarbarna, svonefnd sóknargjöld sem greidd eru sem hlutfall af tekjuskatti, hafa hvergi nærri fylgt verðlagsþróun og einnig hefur gjaldendum fækkað. Því viljum við gefa fólki kost á því að gerast Vinir Dómkirkjunnar og styðja við starf hennar með framlögum á reikning sóknarinnar. Bankaupplýsingar: 513-26-3565 eða tónlistarsjóð kirkjunnar: 358-22-1350, kennitala: 500169-5839.
Margt smátt gerir eitt stórt og þitt framlag skiptir máli. Með nýjum lögum um almannaheillastarfsemi er hægt að styðja við Dómkirkjuna og fá skattafrádrátt. Er einstaklingum heimilt að draga allt að 350 þúsund krónur á ári frá skattskyldum tekjum sínum utan atvinnurekstrar vegna framlaga til almannaheillastarfsemi. Til þess að einstaklingur fái frádrátt þurfa gjafir/framlög hans á árinu að vera a.m.k. 10.000 kr. Framlög/gjafir veita afslátt af tekjuskattsstofni. Þessi nýju lög eru hvatning almenningi til að láta gott af sér leiða á vettvangi frjálsra félagasamtaka. Eins og þáverandi fjármálaráðherra sagði við samþykkt laganna, þá eru þau „skýr skilaboð til þeirra þúsunda sjálfboðaliða sem starfa við almannaheillastarfsemi um allt land um að störf þeirra séu mikils metin og skipti okkur öll máli.“
Dómkirkjan hefur verið helgidómur Reykvíkinga í á þriðju öld, á helgum og hátíðum, gleði og sorgum.
Viltu skrá þig í Þjóðkirkjuna? Það er einfalt og þú getur gert það á netinu https: //kirkjan.is/skraning-i-thjodkirkjuna
Laufey Böðvarsdóttir, 29/12 2025 kl. 21.36