Gleðileg jól kæru vinir!
Hér er endurminning séra Bjarna Jónssonar dómkirkjuprests frá jólum:
Nokkru eftir að búðunum var lokað barst ómurinn frá kirkjuklukkunum. Hringt var til helgra jóla.
„ Það er byrjað að hringja” sagði fólkið. Gengið var til kirkju.
Mér heyrist klukkur dómkirkjunnar segja: Gleðileg jól, gleðileg jól. – Kveikt var á kertaljósunum í kirkjunni og beið þyrpingin fyrir utan kirkjuna, meðan verið var að kveikja …. Dyrnar opnuðust. Kirkjan troðfylltist. Hvílík dýrðarbirta af hinum titrandi ljósum. Nú var það áreiðnalegt að jólin voru komin. Nú hljómuðu jólasálmarnir ,, Heim um ból, helg eru jól” ,, Í Betlehem er barn oss fætt”.. og þá sást oft brosið mæta tárinu, er sungið var: ,, Hvert fátækt hreysi höll nú er, þvi guð er sjálfur gestur hér”.
Dönsk messa er klukkan 14.00 á aðfangadag jóla.
Séra Elínborg Sturludóttir, Matthías Harðarson dómorganisti
Erik Vilstrup Lorenzen sendiherra Danmerkur og Vera Hjördís Matsdóttir söngkona leiðir safnaðarsönginn og syngur einsöng.
Aftansöngurinn í Dómkirkjunni kl. 18 á aðfangadagskvöld lýkur upp hliðum hátíðarinnar fyir landsmönnum.
Þá verður heilagt þegar klukknahljómurinn úr turni Dómkirkjunnar berst yfir landið á öldum ljósvakans. Að þessu sinni prédikar sr. Sveinn Valgeirsson og séra Jón Ásgeir Sigurvinsson þjónar fyrir altari. Matthías Harðarson dómorganisti, Dómkórinn. Jóhann Stefánsson og Sveinn Birkisson leika á trompeta.
Á jólanótt klukkan hálf tólf er miðnæturguðsþjónusta.
Þá verða lesnir og sungnir níu lestrar og sálmar. Guðsþjónustan á sér fyrirmynd í guðsþjónustu sem fram hefur farið í Kings College í Cambridge á Bretlandi óslitið frá 1918.
Á milli lestra syngur söfnuðurinn jólasálma. Séra Elínborg Sturludóttir og Matthías Harðarson dómorganisti leiða guðþjónustuna.
Laufey Böðvarsdóttir, 24/12 2025 kl. 0.28