Dómkirkjan

 

„Frá ómi til hljóms“ verður til sýninga í Bíó Paradís frá 4. nóvember. Heimildamynd þessi er m.a. tekin upp í Dómkirkjunni.

Sveinn Þórarinsson amtskrifari á Möðruvöllum (1821-1868) hélt dagbók frá unglingsaldri þar til hann lést. Dagbókarfærslur, sem lúta á tónlist eru fjölmargar og mynda leiðarstef í heimildamyndinni „Frá ómi til hljóms, — tónlistin á dögum Sveins Þórarinssonar amtskrifara“. Hún fjallar um breytingarnar, sem urðu á íslensku tónlistarlífi á 19. öld. Tónlistariðkun Íslendinga hafði helst verið rímnasöngur, grallarasöngur, þulur og tvísöngslög. Annar fjölraddaður söngur þekktist ekki. Oft var sungið í fornum kirkjutóntegundum, svo sem lydíska skalanum. Einu hljóðfærin, sem almenningur hafði aðgang að, voru langspilið og íslenska fiðlan. Þá gerðist það fyrir miðja 19. öld, að ákveðið var að bæta þyrfti kirkjusönginn í Dómkirkjunni. Þær lagfæringar urðu upphafið á umsnúningi á íslensku tónlistarlífi, sem ruddi braut „hinum nýja söng“, en svo var hinn fjölradda söngur í dúr og moll kallaður, sem barst frá meginlandinu. Alþýðan tók þó líka frumkvæði, ekki síst á Norðurlandi á miðri öldinni; fiðlur og flautur voru keyptar inn og nótnahefti og fiðlueign almennings varð með eindæmum.

„Frá ómi til hljóms“ verður til sýninga í Bíó Paradís frá 4. nóvember.

 

Laufey Böðvarsdóttir, 1/11 2025 kl. 19.37

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS