Dómkirkjan

 

Fyrsta fermingin á þessu vori í Dómkirkjunni er á pálmasunnudag klukkan 11.00.

Fermingarbörnin fá Biblíur að gjöf frá Dómkirkjunni í minningu Ágústu K. Johnson. Þegar Ágústa fagnaði áttræðisafmæli sínu árið 2019 þá kom Karl Sigurbjörnsson heitinn með þá góðu hugmynd að vinir hennar stofnuðu „Ágústusjóð.“ Sjóðurinn er hugsaður meðal annars til þess að kaupa Biblíur fyrir fermingarbörn Dómkirkjunnar. Ágústa þekkti vel orð frelsarans að sælla er að gefa en þiggja, og lifði samkvæmt því. Síðan hafa fermingarbörn Dómkirkjunnar þegið Biblíuna að gjöf á fermingardegi sínum í minningu hennar. Fermingin er áminning um og staðfesting þess að unglingurinn tilheyrir kristnu samfélagi sem er meir en blóðbönd og vinatengsl, og umlykur fortíð og framtíð í óslitinni keðju kynslóðanna í þúsund ár í landinu okkar. Það er sterk keðja, tengd saman af bæn og kærleika, trú og von. Ágústa var sterkur hlekkur í þeirri keðju með bænum sínum, trú og vongleði sem vinum hennar er svo dýrmæt í minningunni. Ágústa hefði fagnað 85 ára afmæli sínu í dag 22. mars hefði hún lifað.
Nú á pálmasunnudag, skírdag og á hvítasunnudag mun hópur barna ganga að altari Dómkirkjunnar til fermingar. Fjölskyldur og vinir fagna með og yfir fermingarbarninu, þakkar þá gæfu og gjöf sem það er og hefur verið og treysta jafnframt heit sín að styðja það og leiða á þroskabraut og gæfuvegi. Orðið ferming merkir staðfesting, staðfesting þess að barnið er skírt og vill játast því og um leið er hún staðfesting kirkjunnar á því að það hafi hlotið uppfræðslu í grundvallaratriðum trúarinnar. Fermingarbarnið játar trúna, þiggur fyrirbæn og blessun til áframhaldandi lífsferðar sem samverkamaður Guðs í heiminum. Guð blessi fermingarbörnin öll og fjölskyldur þeirra á mikilvægum tímamótum. Guð blessi minningu Ágústu K. Johnson
Gæti verið mynd af 1 einstaklingur og blóm

Laufey Böðvarsdóttir, 22/3 2024 kl. 21.31

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS