Dómkirkjan

 

Í dag hvítasunnudagur klukkan 11.00, hátíðar-og fermingarmessa. Séra Sveinn, séra Elínborg, Guðmundur Sigurðsson og Dómkórinn. Á morgun er messa kl. 11.00 þar sem sr. Sveinn prédikar. Guð blessi fermingarbörnin og fjölskyldur þeirra. Verið hjartanlega velkomin.

Góð orð hjá Karli Sigurbjörnssyni um ferminguna.  Fermingin hefur um aldir verið mikilvægur þáttur í trúarlífi og samfélagi okkar. Fyrrum fylgdu ýmis borgaraleg réttindi fermingunni en það er löngu liðin tíð. Flestum finnst samt sem áður að fermingin sé ómissandi hátíð sem marki skil bernsku og unglingsára. Fermingin er reyndar eina hátíðin í okkar samfélagi sem snýst um unglinginn sérstaklega. Fjölskyldan og vinir fagna með og yfir fermingarbarninu, þakkar þá gæfu og gjöf sem það er og hefur verið og treysta jafnframt heit sín að styðja það og leiða á þroskabraut og gæfuvegi. Þakklætið og kærleikurinn sem umvefur barnið á sér dýpri vídd og skýrskotun, vegna þess að það er þökk og gleði yfir Lífinu, sem við þiggjum úr hendi Guðs. Í þeirri hendi erum við aldrei ein. Fermingin er áminning um og staðfesting þess að unglingurinn tilheyrir samfélagi sem er meir en blóðbönd og vinatengsl, samfélag kristninnar sem umlykur fortíð og framtíð í óslitinni keðju kynslóðanna í þúsund ár í landinu okkar. Það er sterk keðja, tengd saman af bæn og kærleika, trú og von. Orðið ferming merkir staðfesting. Fermingin er staðfesting þess að viðkomandi er skírður og vill játast því og staðfesting kirkjunnar á því að hinn skírði hafi hlotið uppfræðslu í grundvallaratriðum trúarinnar. Fermingarbarnið játar trúna, þiggur fyrirbæn og blessun til áframhaldandi lífsferðar sem samverkamaður Guðs í heiminum. Guð blessi fermingarbörnin öll og fjölskyldur þeirra á mikilvægum tímamótum.

B869BC53-61DE-40DF-8CDE-4CF2EF61A874

Laufey Böðvarsdóttir, 28/5 2023 kl. 7.50

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS