Vetrarhátíð í Dómkirkjunni 7. febrúar klukkan 18.00-21.00
Í annað sinn tekur Dómkirkjan þátt í Vetrarhátíð. Hún hefst með fjölskyldustund í kirkjunni kl. 18:00 Fjölskyldustundin er helgi-og fræðslustund sem samanstendur af söng, bænum, sögu og fræðslu. Eftir stundina er boðið upp á sameiginlegan kvöldverð sem prestar kirkjunnar hafa undirbúið. Boðið er upp á kvöldverð sem hentar bæði fólki sem er VEGAN og ekki!
Um kvöldið verður fyrsta „Kvöldkirkjan“ í Dómkirkjunni. En í haust hófst samstarf Dómkirkju og Hallgrímskirkju um þetta samstarfsverkefni. Í Kvöldkirkjunni er lögð áhersla á kyrrð og íhugun og óhefðbundinn tónlistarflutning. Prestar kirkjunnar sjá um bænir og íhugun og Bryndís Jakobsdóttir ( Dísa) sér um tónlistarflutning.
Tilgangur kvöldkirkjunnar er að opna kirkjurnar fyrir fólki, sem vill dýpka trúarlega upplifun sína efla kyrrð, frið og æðruleysi í lífi sínu eða finnur sig ekki í venjulegu og hefðubundnu helgihaldi kirkjunnar. Tónlist, þögn, íhugun og kyrrð eru flétta kvöldkirkjunnar. Sumir staldra við í nokkrar mínútur og aðrir lengi. Kvöldkirkjan er öllum opin. Verið velkomin!
Laufey Böðvarsdóttir, 30/1 2020 kl. 23.34