Umhverfismessa og sunnudagaskóli 6. október klukkan 11.00. Séra Elínborg Sturludóttir, Kári Þormar og Dómkórinn. Sunnudagaskóli á kirkjuloftinu. Kirkjukaffi í safnaðarheimilinu! Ritningarlestrar, bænir og sálmar dagsins taka mið af náttúrunni og sköpun jarðar og prédikunin verður helguð umhverfismálum. Nú hefur Þjóðkirkjan markað sér skýra umhverfisstefnu og gert aðgerðaáætlun um það hvernig hún getur unnið að því að snúa við þeirri öfugþróun sem átt hefur sér stað á undanförnum áratugum í umhverfismálum. Kirkjuþing hvetur söfnuði landsins til að stíga skref í átt að sjálfbærari rekstri með því að taka þátt í umhverfisstarfi kirkjunnar. Nú hafa allnokkrir söfnuðir fengið viðurkenningu á því að vera „græn kirkja“ og það skref ætlar Dómkirkjusöfnuðurinn líka að taka. Kirkjan er í sterkri stöðu til að haft áhrif á viðhorf og lífsstíl fólks í gegnum safnaðarstarf sitt, prédikun og helgihald. Dómkirkjusöfnuðurinn vill leggjast á sveif með sköpuninni og ætlar ekki að láta sitt eftir liggja til að stíga skref í átt að sjáflbærari lífsháttum.
Laufey Böðvarsdóttir, 3/10 2019 kl. 7.52