Dómkirkjan

 

Fólkið í kirkjunni: Leikmaður í biskupshúsi Marinó Þorsteinsson, traustur maður við traustan stofn. Hann hefur setið 29 leikmannastefnur og lét nýverið af formennsku í leikmannaráði þjóðkirkjunnar. Nú er hann formaður sóknarnefndar Dómkirkjunnar og hefur verið þar í sóknarnefnd frá 1985 eða í 35 ár. Þar af formaður í fjórtán ár. „Ég ólst upp á trúuðu heimili,“ segir hann, „barnatrúin fylgdi mér úr foreldrahúsum og hefur ætíð hjálpað mér og ekki síst á erfiðum stundum“. Marinó Sæberg Þorsteinsson er fæddur og uppalinn á Akureyri. Hann er einn af mörgum lærisveinum sr. Péturs Sigurgeirssonar, síðar biskups. Gekk í sunnudagaskólann hjá honum fyrir norðan og um fermingu tók hann þátt í öflugu æskulýðsstarfi prestsins unga og glaða sem heillaði alla með hlýju brosi og kærleiksríkri nærveru. Það mótaði unga drenginn sem síðan fór í Menntaskólann á Akureyri. „Ég er honum ævinlega þakklátur,“ segir Marinó með þungri áherslu þegar honum verður hugsað til sr. Péturs. Marinó hélt suður að stúdentsprófi loknu og hóf nám í viðskiptafræðum við Háskólann sem hann lauk 1964. Hann hélt út í lífið þar sem mörg verkefni biðu unga mannsins. Marinó enda lipur í samskiptum, glöggur og réttsýnn. Skjótur til verka enda hraðgengur og snar í snúningum eins og enn þennan fagra haustdag þegar kirkjan.is tók hús á honum. Framkvæmdastjórn og verkstjórn félaga og samtaka fórst honum vel úr hendi og hann var kallaður til ýmissa starfa þar sem vanda þurfti til allra verka. Hann starfaði í tvo áratugi hjá Smjörlíki/Sól hf., og í fimmtán ár hjá Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar. Starfsferli sínum lauk hann hjá Orkuveitunni og var þar í sex ár. Marinó og kona hans, Anna Garðarsdóttir, búa við Vesturgötuna í Reykjavík. Húsið lætur lítið yfir sér og í raun nýtur það þeirra forréttinda að eftir því er ekki tekið. Stendur hljótt í götunni og öruggt á allar hliðar. Bak því er lítil paradís, stór og mikill garður. Og það hvarflar ekki að vegfarendum sem fara þar hjá í amstri daganna að slíkan sælureit sér þar að finna. „Þetta hús reisti biskupinn sr. Hallgrímur Sveinsson og bjó hér,“ segir Marinó. „Þá var það einlyft og með háu þaki. Það er búið að stækka það mikið og endurbæta.“ Viðirnir í húsið voru fluttir inn frá Noregi og þegar unnið var að endurbótum hússins og þil tekin ofan komu í ljós stoðir sem allar voru merktar vandlega með rómverskum tölustöfum hinna norsku framleiðenda sem áttu að tryggja að það yrði sett saman með réttum hætti. Sr. Hallgrímur biskup, hann muna fáir – var fæddur á fimmta áratug 19du aldar. Flestir biskupar gleymast eins og aðrir enda þótt merkir séu. En þó má nefna honum til heiðurs að hann þá dómkirkjuprestur knúði fram að kolaofnar voru settir í Dómkirkjuna þegar endurbætur voru gerðar á henni árið 1879. Þá tók að liðast svartur kolareykur upp um reykháfana tvo sem enn má sjá á kirkjunni. En kirkjumálin hafa átt hug sóknarnefndarformannsins Marinós um áratugaskeið og hann verið í forystu leikmanna. Þar hefur verið traustur maður í forsvari þeirrar hreyfingar sem hefur kannski ekki verið áberandi í kirkju landsins. En leikmenn eru þegar á öllu er botninn hvolft lykilfólk í kirkjunni. Marinó Þorsteinsson, formaður sóknarnefndar Dómkirkjunnar, er einn af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni.

Laufey Böðvarsdóttir, 22/9 2019 kl. 22.38

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS