Nú er þessi fallegi dagur að kvöldi kominn og margt gott framundan í vikunni. Á morgun mánudag er fundur kl. 18.00 hjá Kirkjunefnd kvenna Dómkirkjunnar. Á þriðjudaginn er bæna-og kyrrðarstund í hádeginu, léttur hádegisverður að henni lokinni. Dásamlegu Bach tónleikarnir hans Ólafs Elíassonar kl. 20.30-21.00 á þriðjudagskvöldið. Fermingarbarnafræðsla á miðvikudaginn og kl. 18.00 er örpílagrímaganga frá Dómkirkjunni. Á fimmtudaginn er Opna húsið kl. 13.00 og nú kemur Karl okkar biskup og með honum hverfum við 100 ár aftur í tímann og heyrum frá því merka ári 1918. Það verða Ástukræsingar á borðum. Kl. 16.45-17.00 er tíðasöngur í kirkjunni. Á sunnudaginn er messa og sunnudagaskóli kl. 11.00. Verið velkomin að taka þátt í fjölbreyttu og góðu safnaðarstarfi. Tryggið ykkur miða á Jólaóratoríu Bach þann 24. nóvember!!! Jólaóratorían eftir J.S. Bach er í hugum margra ómissandi þáttur í aðdraganda jólanna. Dómkórinn í Reykjavík, ásamt einsöngvurum og kammersveit, flytur þetta magnaða verk í Hallgrímskirkju laugardaginn 24. nóvember. Einsöngvarar verða þau Hallveig Rúnarsdóttir sópran, Hanna Dóra Sturludóttir alt, Benedikt Kristjánsson tenór og Jóhann Kristinsson bassi. Konsertmeistari er Una Sveinbjarnardóttir og stjórnandi er Kári Þormar dómorganisti. Jólaóratorían eftir J.S. Bach er þekktasta og stórbrotnasta tónverk sem samið hefur verið í tilefni af fæðingarhátíð Krists og hefur glatt hjörtu tónlistarunnenda um langan aldur, enda eitt höfuðverka síðbarokksins. Verkið inniheldur sex kantötur sem Bach samdi undir árslok 1734. Á tónleikunum í Hallgrímskirkju verða fluttar fjórar kantötur, númer 1, 3, 5 og 6 og tekur flutningurinn um tvær klukkustundir. Hátt í 100 manns koma að flutningnum, 20 manna hljómsveit og 70 manna kór, ásamt einsöngvurum og stjórnanda. Miðaverð: 5.900 kr. á Tix.is en 4.900 kr. hjá kórfélögum. Miðar verða einnig seldir við innganginn.
Laufey Böðvarsdóttir, 12/11 2018 kl. 17.25