Dómkórinn flytur sálumessur eftir Gabríel Fauré og Maurice Duruflé á tónleikum í Hallgrímskirkju 12. nóvember kl. 17
Dómkórinn flytur sálumessur eftir Gabríel Fauré og Maurice Duruflé á tónleikum í Hallgrímskirkju 12. nóvember næstkomandi. Báðar sálumessurnar eru til í fleiri en einni útgáfu en á tónleikunum verða þær fluttar af kór, tveimur einsöngvurum og við orgelleik. Söngvarar eru: Oddur Arnþór Jónsson barítón syngur í báðum verkunum, Guðbjörg Hilmarsdóttir sópran í Fauré og Hanna Dóra Sturludóttir messósópran í Duruflé. Steingrímur Þórhallsson leikur á orgelið og Inga Rós Ingólfsdóttir á selló í Duruflé. Stúlknaraddir úr Kór Menntaskólans í Reykjavík syngja jafnframt í Duruflé. Stjórnandi er Kári Þormar dómorganisti.
Þessar sálumessur eiga margt sameiginlegt og eitt af því er að þótt – eða kannski vegna þess – að þær eru til þess ætlaðar að minnast látinna er tónlistin blíð, svífandi og falleg. Bæði tónskáld sleppa kaflanum Dies Irae – degi reiðinnar – sem er yfirleitt fastur liður í öllum sálumessum, enda hefur verk Fauré verið kallað vögguvísa um dauðann.
Annað sem þessum verkum er sameiginlegt er að báðir höfundarnir voru franskir. Gabriel Fauré var rúmlega hálfri öld eldri, fæddur 1845, en Maurice Duruflé 1902, Fauré fulltrúi rómantísku stefnunnar en Duruflé alinn upp í gregorískum söng sem hann neyddist kannski til að nútímavæða í anda módernismans. Þrátt fyrir ýmis líkindi eru verkin samin á afar ólíkum tímum. Fauré semur sína sálumessu á árunum 1887-90 þegar nokkuð friðvænlegt er í kringum hann, en Duruflé byrjar á sinni í lok seinni heimsstyrjaldar með sprengjudrunurnar ferskar í kollinum og lýkur henni 1947.
Laufey Böðvarsdóttir, 3/11 2017 kl. 8.27