Dómkirkjan

 

Prédikun séra Hjálmars Jónssonar í Dómkirkjunni í dag

Predikunin í morgun, 29. jan 2017
Lexía: Job 42.1-5
Job svaraði Drottni og sagði:
Nú skil ég að þú getur allt,
ekkert, sem þú vilt, er þér um megn.
Hver myrkvar ráðsályktunina án þekkingar?
Ég hef talað af skilningsleysi
um undursamleg kraftaverk.
Hlustaðu, nú ætla ég að tala,
ég ætla að spyrja, þú skalt svara.
Ég þekkti þig af afspurn
en nú hefur auga mitt litið þig.
Guðspjall: Matt 14.22-33
Tafarlaust knúði Jesús lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan sér yfir um meðan sendi fólkið brott. Og er hann hafði látið fólkið fara gekk hann til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi. Þegar kvöld var komið var hann þar einn. En báturinn var þegar kominn langt frá landi og lá undir áföllum því að vindur var á móti.
En er langt var liðið nætur kom Jesús til þeirra, gangandi á vatninu. Þegar lærisveinarnir sáu hann ganga á vatninu varð þeim bilt við. Þeir sögðu: „Þetta er vofa,“ og æptu af hræðslu.
En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: „Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.“
Pétur svaraði honum: „Ef það ert þú, Drottinn, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu.“
Jesús svaraði: „Kom þú!“ Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans. En er hann sá ofviðrið varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: „Drottinn, bjarga þú mér!“
Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: „Trúlitli maður, hví efaðist þú?“
Þeir stigu í bátinn og þá lægði vindinn. En þeir sem í bátnum voru féllu fram fyrir honum og sögðu: „Sannarlega ert þú sonur Guðs.“
Gangan á vatninu. Margar sögur af undrum og kraftaverkum hafa leitt fólk til trúar. Margar þær sögur hafa líka eflt aðra í vantrú sinni og orðið þeim efniviður í sífellda hneykslun. Guðspjallið í dag er ein þeirra. Að Jesús geri ekkert með eðlisfræðina og eðlisþyngd hlutann, hann geti orðið svo léttur að hann gangi á vatninu. Oft tók ég rökræðusyrpur við kunningja mína fyrr á árum. Kannski hefur dofnað löngun manns til þess með árunum, það skilar svo ósköp litlu. Sumt meðtekur maður bara betur með hjartanu en heilanum. Þó er hægt að ræða trúmál með rökum ekki síður; reynslurökin eru þar ólygnust, áhrif kristninnar á hugsun, á siði, á löggjöf landa og þjóða. Til eru svo ótal mörg dæmi um það hvernig trúin kemur með ljós og von inn í myrkur sorgar og örvæntingar.
En nú ætla ég að segja ykkur mína uppáhaldssögu, hún gerist árið 1895. Það eru undirbúningstímar fyrir inntökupróf nýrra nemenda í tækniháskólann í Zürich, Eidgenössische Technische Hochschule, Swiss Federal Polytechnic.
Það er að byrja kennslustund í eðlisfræði í skólanum. Kennarinn, prófessorinn, er vísindamaður og nálgast að sjálfsögðu viðfangsefnin með vísindalegum
aðferðum. Hann byrjar á því að útskýra þann vanda sem vísindin eigi í gagnvart trúarbrögðunum; þau byggi á opinberun og trú en ekki á vísindalegum niðurstöðum.
Hann lítur síðan yfir stúdentahópinn og biður einn af nýju nemendunum að standa upp. Ert þú kristinnar trúar? Spyr hann.
Já, svarar nemandinn.
Svo þú trúir á Guð? Já, ég geri það, er svarið.
Er Guð góður? Sannarlega. Hann er það.
Er Guð líka almáttugur? Getur Guð gert hvað sem er? — Já
Ert þú góður eða slæmur? Spyr þá kennarinn. — Biblían segir að ég sé syndugur.
Biblían, já segir kennarinn. Setjum nú svo að það sé veik manneskja hér í grenndinni og þú gætir læknað hana, myndirðu gera það? — Já það myndi ég gera.
Þannig að þú ert góður? — Nei, það myndi ég nú ekki segja.
En hvers vegna ekki? Myndir hjálpa ef þú gætir. Flest myndum við gera það strax. En Guð kemur ekki til hjálpar þótt hann geti allt? — Nú svarar ungi maðurinn ekki svo kennarinn heldur áfram: Hann hjálpar ekki, er það? Bróðir minn, sem var trúaður,
hann dó úr krabbameini þó svo hann hefði beðið Jesú Krist að koma og lækna sig. Hvernig góður er þá Jesús? Geturðu svarað því?
Nemandinn situr þögull svo kennarinn segir: Þú getur ekki svarað þessu, er það nokkuð? – Og ungi maðurinn situr og segir ekkert.
Kennarinn rýfur þögnina: Byrjum nú upp á nýtt. Er Guð góður? — Já, hann er góður. Skapaði Guð heiminn? — Já. Skapaði hann góðan heim? — Já. En er ekki margt illt í heiminum? — Jú.
Hver skapaði þá hið illa? Ef Guð skapaði allt þá skapaði hann bæði gott og illt – og þá er hann bæði góður og vondur sjálfur? —Enn á ungi maðurinn, nýi nemandinn í þessum virta skóla, í erfiðleikum með að svara svo kennarinn heldur áfram: Eru sjúkdómar í heiminum, siðleysi, hatur, illska? Þrífst ekki allt þetta í veröldinni? —
Nemandinn horfir niður á fætur sér og svarar: Jú, þetta er allt til staðar.
Og hver skapaði það þá allt saman ef Guð er góður og almáttugur? spyr nú kennarinn með þunga og nokkru óþoli. — Það fer kliður samsinnis um bekkinn, nema annar nýr nemandi hrífst ekki með.
Sá er líka nýkominn til þess að þreyta inntökupróf í skólann. Og kennarinn spyr hann: Albert, trúir þú á Jesú Krist, Guðs son?
—Já herra, ég trúi á hann.
Vísindin segja að við höfum fimm skilningarvit sem við notum til þess að skoða, rannsaka og skilgreina heiminn umhverfis okkur. Hefurðu nokkurn tíma séð Jesú eða heyrt hann tala persónulega?
Því svarar þessi Albert neitandi. Áfram er spurt: Þú getur semsagt ekkert notað af skilningarvitunum 5 til þess að sanna að Guð sé til en trúir samt á hann? —Já, ég geri það. Samkvæmt mælikvarða vísindanna, margprófuðum og sönnuðum aðferðum í hinum efnislega heimi, er Guð alls ekki til. Hvað segirðu við því, ungi maður?
Ég segi ekkert við því, ég hef bara mína trú.
Já, trú, endurtekur kennarinn, þetta er einmitt vandinn í hnotskurn. Vísindin vilja staðreyndir og sannanir en hjá trúarbrögðunum eru hvorki staðreyndir né sannanir, bara trú.
Nú stendur þess nýspurði nemandi upp, Albert – og spyr eðlisfræðiprófessorinn: Er hiti til? – Já. – Og er kuldi til? spyr nemandinn. Já, það er líka til kuldi.
Nei, herra, þannig er það ekki. —Nú vaknar áhugi hjá prófessornum, bekkurinn hljóðnar svo nýi nemandinn útskýrir sitt mál:
Þú getur fundið ýmis stig af hita, ofurhita, bruna, suðu og hvaðeina, jafnvel engan hita. En við eigum ekkert sem er kuldi. Við getum komist með hitann niður í mínus 273°á Celsius, sem er núllpunktur hitans. Þar er því enginn hiti. Við komumst ekki niður fyrir það. Kuldi er því ekkert annað en skortur á hita, orð sem við notum og merkir fjarveru hitans. Hita getum við mælt því að hiti er orka. Kulda getum við ekki mælt. Hann er því ekki andstæða hita heldur skortur á hita.
Þögn ríkir í skólastofunni og nemandinn, Albert heldur áfram: En hvað um myrkrið, prófessor, er til myrkur? — Já, auðvitað er til myrkur, hvað er á nóttunni ef ekki myrkur?
Nei, prófessor, þú hefur rangt fyrir þér. Myrkur er ekkert í sjálfu sér. Það er ekki sérstakt efni heldur skortur á ljósi. Þú getur haft mikið ljós eða lítið, götuljós, lesljós, leifturljós – en ef þú hefur ekkert ljós er það kallað myrkur.
Nú spyr kennarinn hvað Albert sé eiginlega að fara með þessu. Jú, ég beiti sömu aðferðum og þú í
nálgun þinni. Þú nálgast málefnið með ákveðinni tvíhyggju. Þú segir Líf-dauði, hiti-kuldi. Góður Guð – vondur Guð. En þetta gengur ekki upp. Vísindin geta ekki einu sinni rannsakað hvað hugsun er. Talar um rafboð og segulkrafta en getur þó hvorugt séð og enn síður fyllilega skilið það. Líf og dauði eru ekki andstæður, því að dauðinn er ekki til sem veruleiki. Hann er skortur á lífi. Og enn spyr nemandinn: Er hið illa til? — Já, svarar kennarinn, það er alls staðar kringum okkur því miður, það birtist t.d. í samskiptum fólksins á jörðinni, í óteljandi glæpum og illverkum.
Hið illa er ekki til þannig, herra minn. A.m.k. ekki sem sjálfstæður veruleiki. Guð skapaði ekki hið illa. Hið illa er skortur á hinu góða, fjarlægð frá Guði. Það er eins og með myrkrið og kuldann, orð sem táknar fjarlægð frá birtu og hlýju. Hið illa er ástand sem verður þegar maður á ekki kærleika Guðs í hjarta sínu. Þetta er eins og myrkrið sem kemur þegar ljósið vantar – og kuldinn sem kemur þegar hitann vantar.
Nú settist prófessorinn niður. Hann fylgdist síðar með þessum nýja nemanda skólans. Í dag heitir þessi skóli Eidgenössische Technische Hochschule, skólinn var
stofnaður 1855, hann starfar með sóma enn í dag – og hefur útskrifað marga frábæra vísindamenn, þ.á.m. eru 20 sem hafa hlotið Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði. En nemandann sem rak prófessorinn á gat, og gerði hann orðlausan, höfum öll heyrt nefndan. Heimurinn nýtur í ríkum mæli ævistarfs hans. Hann hét Albert Einstein. Hann hlaut Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 1921. Áhrifamesti eðlisfræðingur 20. aldarinnar og er kallaður faðir nútíma-eðlisfræði. Hann var fyrstu ár skólagöngu sinnar í kaþólskum barnaskóla í Munchen.
Og hann sá ekki að trú og vísindi rækjust á. Þannig er heilbrigð trú og heilbrigð vísindi. …..

Laufey Böðvarsdóttir, 29/1 2017 kl. 15.30

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS