Dómkirkjan

 

Prédikun séra Hjálmars í guðþjónustu í Dómkirkjunni í dag við setningu Alþingis.

Náð og friður sé með ykkur.
Við hittumst á helgri stund í Dómkirkjunni samkvæmt venju við setningu hins háa Alþingis.
Verið hjartanlega velkomin, þið sem komið hafið fyrr af þessu tilefni og þið sérstaklega, sem eruð að koma í fyrsta skiptið að sinna embættis- og þingskyldum á þessum degi. Það er viðburður sem eftir er tekið þegar nýtt þing kemur saman að loknum Alþingiskosningum. Ég man þá tíð mjög vel að koma til fyrsta þings, kjörinn til starfa á Alþingi, hafandi fengið þetta dýrmæta hlutverk, hlotið þann trúnað af þjóðinni, að fara með hin sameiginlegu mál og leita leiða til farsælla lausna í hverju máli. Enginn vill bregðast þessu trausti. Sem þingmenn erum við bundin trúnaði við fólkið í landinu, kjörin vegna þess gildismats, skoðana og stefnu sem við höfðum kynnt og lýst vilja til að fái framgang.
En þá kynntist maður nýjum aðstæðum. Það voru 62 önnur sem kosin höfðu verið, kosin vegna þess gildismats, þeirra skoðana og stefnu, sem þau höfðu kynnt – og hlotið brautargengi með sama hætti.
Og þá þarf maður að fara að hugsa sig um. Veit ég allt best? Hef ég allar gáfur mín megin, get ég byrjað mína pólitísku siglingu á því að binda stýrið fast og hvika hvergi? Viss grundvallargildi hefur eitt og sérhvert okkar, en útfærsla hugmynda og stefnu er sameiginlegt verkefni margra. Það er vinna með fólki sem hefur oft aðrar áherslur en maður sjálfur. Og það er hluti af þessu trúnaðarhlutverki að ná saman og finna færar leiðir. Starfið á Alþingi kenndi mér margt. Einkum það að vinna með fólki með önnur, stundum ólík, sjónarmið. Koma að málum með opnum huga og tiltekinni auðmýkt.
Það er vissulega þægilegt að vera í hópi sem er algerlega sammála. En það er ekki að sama skapi gagnlegt því að þar sem allir hugsa eins, þar hugsar enginn mikið. Náungakærleikur, sem bæði hefur í sér fólgna staðfestu og umburðarlyndi, er mikilvægur. En þetta er nú einmitt það sem við væntum af öðrum.
Ég kynntist því að þetta er þrotlaus vinna, að vinna málin fram til niðurstöðu, með staðfestu, hreinskilni og opnum huga. Þingmaður er hluti af mikilvægri heild.
Og svo lauk þessu tímabili, það var ekki ævistarfið mitt. Ég var kvaddur af góðum félaga mínum á þingi, sem nú á lengstan feril að baki, með þessum orðum:
Á Alþingi við áttum prest,
á honum var stólpakjaftur.
Það var sem mér þótti best
þegar Drottinn tók hann aftur.
Það þarf að vera góður mórall, starfsandi, hlýleiki og notalegheit. Þá gengur allt miklu betur.
Og hérna megin Sundsins uni ég mér vel. Þjóðin á þessi tvö fallegu hús hér við Austurvöllinn, hvort með sitt hlutverkið, bæði til þess fallin að stuðla að gæfu og gengi landsmanna. Hér er hátíð alla daga aðventunnar. Við höfum horft til sögu þessa húss undanfarið, 220 ár voru í haust frá vígslu þess. Alltaf eru tímamót. Ein slík eru einmitt í dag. Við minnumst afmælis dr. Kristjáns Eldjárns, okkar ástsæla fyrrum forseta. Í dag er 100 ár frá fæðingu hans.
Eftir að hann lét af embætti steig hann í stólinn í Tjarnarkirkju í Svarfaðardal, kirkjunni þar sem afi hans hafði skírt hann ungan.
Þar sagði dr. Kristján meðal annars:
„Ég hef stundum fengið að heyra það á minni ævi, að ég sé ekki mikill kirkjunnar maður og fannst sumum það nokkur ljóður á ráði mínu að ég færi ekki mikið með guðsorð í ræðum sem ég hélt meðan ég var forseti. Satt mun það vera, og víst get ég ekki hrósað mér af því að ég sé kirkjurækinn maður í venjulegum skilningi þess orðs. En ég vona að það sé ekki hræsni þegar ég segi að það er trú og sannfæring okkar allra, að við Íslendingar, hvort sem við erum veikari eða sterkari í trúnni, ættum að lofa forsjónina fyrir það að við skulum tilheyra hinum kristna hluta mannkynsins í þessum ekki allt of góða heimi, að við búum við hugsunarhátt, þjóðlíf og menningu sem um aldir hefur mótast af kristinni trú og kristinni kirkju. Þetta eru dásamleg forréttindi, sem aðeins nokkur hluti jarðarbúa nýtur. Þetta held ég að hver íslenskur maður ætti að gera sér ljóst og íhuga í alvöru.“

Góðir vinir, ég held við eigum að halda áfram að gera okkur þetta ljóst. Að sjálfsögðu ekki með því að ganga á rétt annarra, nýrra Íslendinga eða þeirra sem aðhyllast önnur eða engin trúarbrögð. En það er engum gerður greiði með því að við verðum sögulaus, hefðalaus, trúlaus. Ekkert samfélag batnar við það.
Við eigum að umgangast alla menn, konur og karla, unga og aldna, með sama hætti. Engin aðgreining, manngreinarálit eða skipting er réttlætanleg samkvæmt kristinni trú.
Amen

Laufey Böðvarsdóttir, 6/12 2016 kl. 23.21

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS