Dómkirkjan

 

Nýr hátíðarhökull í Dómkirkjunni, séra Sveinn Valgeirsson skrýðist höklinum við aftansöng í kvöld kl. 18. Dómkirkjunni hefur borist nýr hátíðarhökull að gjöf. Gefandi vill ekki láta nafn síns getið. Hökullinn er hvítur, ofinn í damasktækni með íofnum gullþræði og fóðraður með sérlituðu silkifóðri. Á baki er gylltur kross, sem ber svip af silfurkrossinum sem prýðir altarisklæði kirkjunnar. Sitthvoru megin eru grísku stafirnir, alfa og ómega, sem vísa í orð Jesú: Ég er alfa og ómega, upphafið og endirinn. Að framan er svonefnd Lúthersrós, sem var innsigli Marteins Lúthers. Krossinn í hjartanu, tákn trúar og kærleika í hvítri rós, sem er tákn gleðinnar og umhverfis er gylltur hringur, tákn eilífa lífsins. Elín Stefánsdóttir, veflistarkona, vann og óf hökulinn í samvinnu við Karl Sigurbjörnsson biskup. Þessi fagra gjöf er kærleikstjáning og þakklætis til Dómkirkjunnar og þess Drottins sem hún er helguð, og þess sem hún stendur fyrir með helgri iðkun um ársins hring. Guð launi fagra gjöf og blessi þann góða hug sem að baki býr.

IMG_1283

Laufey Böðvarsdóttir, 24/12 2016 kl. 7.09

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS