Dómkirkjan

 

Páll Benediktsson verður gestur okkar á prjónakvöldinu mánudaginn 23. nóvember kl.19

Nú er komið að síðasta prjónakvöldi Dómkirkjunnar á þessu ári, en það verður mánudagskvöldið 23. nóvember kl. 19:00 í safnaðarheimilini Lækjargötu 14a. Súpa, kaffi og eitthvað sætt með kaffinu. Gestur okkar að þessu sinni verður Páll Benediktsson, fyrrverandi fréttamaður. Páll les upp úr bók sinni Loftklukkunni, einnigverður hann með bækur og áritar fyrir þá sem það kjósa. Hlökkum til að eiga skemmtilegt kvöld með ykkur.
Loftklukkan er skáldsaga eftir Pál Benediktsson fyrrverandi fréttamann á RUV, byggð á sönnum atburðum þar sem aðalsögusviðið er Reykjavík á síðustu öld. Í sögunni er flétt saman örlögum fjölskyldu í þrjár kynslóðir þar sem morð, mannshvarf, alvarleg lögreglumál, raunir Íslendinga í klóm nasista í síðari heimstyrjöld og fleira og fleira er rifjað upp. Í forgrunni frásagnarinnar er líf sögumannsins á uppvaxtarárunum í Norðurmýri á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Meðal persóna er afi höfundar, Árni Benediktsson, fátækur bóndasonur úr Selárdal sem gerður var að stórkaupmanni í Reykjavík eftir að hann giftist föðurömmunni Kristrúnu Hallgrímsson, sem var hefðardama af ríkasta kaupmannsfólki landsins á Eyrarbakka. Árni stakk síðar af og hvarf sporlaust einn góðan veðurdag frá Kristrúnu og fimm ungum börnum án þess að til hans spyrðist um árabil. (Skáldsaga Ólafs Jóhanns Ólafssonar, Höll Minninganna, er byggð á æviferli Árna og Kristrúnar, en í henni er vikið í mjög veigamiklum atriðum frá raunveruleikanum, enda um hreina skáldsögu að ræða.)Móðurafi höfundar, Páll Árnason, var þekkt og áberandi persóna í Reykjavík á fyrstu áratugum 20. aldar, bóndasonur austan úr Holtum sem flutti ungur á mölina og varð lögreglumaður númer tvö í Reykjavík. Hann var alltaf kallaður Palli pólití og er fjallað um hans embættistíð, bæði skondin og alvarleg atvik.Foreldrar höfundar mótuðust af hinum sérstöku aðstæðum í uppvextinum og rötuðu í ýmis ævintýri, til að mynda er þau urðu innlyksa í Kaupmannahöfn eftir að nasistar hertóku Danmörku í síðari heimsstyrjöld og komu síðar heim í miðju stríðinu í hinni frægu Petsamo ferð.

Laufey Böðvarsdóttir, 19/11 2015 kl. 16.14

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS