Saman í bæn fyrir landi og þjóð – Kristsdagur 27. september
Kerti í bænastjaka.
Kristsdagur verður haldinn laugardaginn 27. september í Hörpu með þrískiptri dagskrá frá kl. 10-12, 14-16 og 18-20 í Eldborg. Viðburðurinn er samkirkjulegur og undirbúinn af hópi fólks úr ýmsum kirkjum og kristnum trúfélögum.
Þema dagsins er „Saman í bæn fyrir landi og þjóð“. Dagskrá fyrstu tveggja samveranna verður bæn fyrir hinum ýmsum sviðum samfélagsins auk tónlistar, stuttra ávarpa og ritningarlestur. Fyrir hádegi verður dagskráin með þjóðlegum blæ og eftir hádegi með alþjóðlegum blæ þó svo áherslan sé á bæn fyrir Íslandi og þjóðinni. Hátt í 300 manns munu taka þátt í tónlist og söng, þar af eru nokkrir kórar og lúðrasveit.
Fólk úr mörgum mismunandi kirkjudeildum, alls um 60 manns, mun stíga fram og leiða bænagjörð dagsins. Þar á meðal eru vígslubiskupar, prestar, djáknar og leikmenn. Bæði forseti Íslands og biskup Íslands munu flytja ávörp í upphafi morgunstundarinnar.
Sérstök barnadagskrá fyrir 5-12 ára verður í Silfurbergi á sama tíma sem einkennist af söng, gleði, leik og fræðslu um bænina og mikilvægi hennar. Á svæðinu fyrir framan Eldborg verða kynningarborð þar sem margvíslegt kristilegt starf verður kynnt og sérstakt bænatjald fyrir persónulega fyrirbæn.
Kl. 18-20 verða söngtónleikar í Eldborg þar sem sungin verða nýleg lög og eldri sálmar. Áherslan er á að fólk geti sungið með og lokið þessum degi þannig í lofgjörð til Drottins. Umsjón með tónleikunum hafa Óskar Einarsson og Hrönn Svansdóttir.
Aðgangur er ókeypis á meðan húsrúm leyfir.
Laufey Böðvarsdóttir, 22/9 2014 kl. 19.58