Til foreldra og forráðamanna fermingarbarna í Dómkirkjunni 2014
Guð gefi ykkur gleðilegt ár og bestu þakkir fyrir ánægjulegt samstarf á liðnu ári.
Hér með er boðað til fundar með fermingarbörnum og forráðamönnum þeirra sunnudaginn, 19. janúar n.k. kl 11. Að lokinni messu í Dómkirkjunni verður gengið út í safnaðarheimilið við Vonarstræti þar sem boðið verður upp á samlokur og samtal um væntanlegar fermingar. Séra Anna Sigríður Pálsdóttir mun fjalla um meðvirkni og áhrif hennar á samskipti foreldra og barna.
Hinn 23. febrúar verður aftur samvera með ámóta hætti. Að lokinni messu kl. 11 verður samtal í safnaðarheimilinu þar sem séra Karl Sigurbjörnsson fjallar um bæn og trú.
Síðasta samvera fermingarbarna og forráðamanna er áformuð í lok mars. Verður það auglýst nánar þegar séra Hjálmar kemur aftur til starfa.
Við væntum þess að sjá ykkur öll í þessum samverum og biðjum um að þið sendið staðfestingu á móttöku þessa bréfs á netfangið domkirkjan@domkirkjan.is
Eins fram hefur komið verða fermingarnar á pálmasunnudag, 13. apríl, skírdag, 17. apríl, og hvítasunnudag, 8. júní. Þau sem ekki hafa nú þegar ákveðið dag og látið okkur vita eru beðin að gera það sem allra fyrst.
Nokkur barnanna sóttu ekki fermingarnámskeiðið sem haldið var í ágúst. Við þurfum nauðsynlega að hitta þau, því óðum styttist í ferminguna. Eru þau boðuð miðvikudaginn 15. jan. kl. 17.30 í safnaðarheimilið, Lækjargötu 14a. Mikilvægt að þau börn, sem ekki geta mætt þá, láti vita svo við getum fundið annan tíma.
Svo viljum við að lokum segja frá því að Ungdóm, æskulýðsstarf Dómkirkjunnar, hittist á mánudögum kl 19.30 – 21.00 í Safnaðarheimilinu.
Helgina 14- 16. febrúar verður æskulýðsmót í Vatnaskógi. Börnin, sem sækja fundi í Ungdóm, hafa fengið upplýsingar um það, en öll fermingarbörnin munu verða upplýst um þetta þegar nær dregur.
Með bestu kveðjum og góðum óskum.
Anna Sigríður Pálsdóttir
Karl Sigurbjörnsson
Laufey Böðvarsdóttir, 9/1 2014 kl. 16.07