Dómkirkjan

 

Guðfinna Ragnarsdóttir gestur okkar í Opna húsinu 6. október klukkan 13.00

Guðfinna Ragnarsdóttir er gestur okkar í safnaðarheimili Dómkirkjunnar, Lækjargötu 14a. fimmtudaginn 6. október klukkan 13.00. Guðfinna segir frá fjallferð með Grímsnesingum.
Guðfinna Ragnarsdóttir er fædd 1943. Hún er jarðfræðingur að mennt og kenndi jarðfræði og efnafræði við Menntaskólann í Reykjavík í rúman aldarfjórðung. Hún er einnig menntaður blaðamaður frá Blaðamannaháskólanum í Stokkhólmi og hefur ritstýrt Fréttabréfi Ættfræðifélagsins í tuttugu ár, en ættfræði er hennar fremsta áhugamál. Guðfinna gaf út bókina Sagnaþættir Guðfinnu árið 2017 og í haust kemur út eftir hana bókin Á vori lífsins, þar sem hún segir meðal annars frá Fjallferðinni sem hún ætlar að segja okkur frá í dag. Eiginmaður Guðfinnu er Magnús Grímsson framhaldsskólakennari og bóndi á Neðra-Apavatni í Grímsnesi. Guðfinna var tengd Hömrum í Grímsnesi frá frumbernsku en tengslin við Hamraheimilið hófust frostaveturinn mikla árið 1918, þegar spánska veikin geysaði og fátæk börn úr Reykjavík, meðal annarra Ragnar faðir Guðfinnu og Elías bróðir hans, voru send austur í sveitir. Hamrahjónin, Sigríður Bjarnadóttir og Jóhannes Jónsson, bændur þar, urðu vinir fjölskyldunnar til æviloka.
Verið velkomin í Opna húsið á fimmtudaginn, kaffi, gott meðlæti, fræðsla og skemmtun.

Laufey Böðvarsdóttir, 6/10 2022 kl. 10.34

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS