Fermingarstarfið hefst sunnudaginn 3. september með messu kl.11
Sumri hallar, hausta fer, skólar hefjast og hversdagurinn fellur senn í sínar föstu skorður. Orðið haust merkir uppskera, og það er hugtak og reynsla sem er þrungið von og framtíð á nýju vori. Trúin horfir fram í slíkri von. Kirkjunni er ætlað að glæða og næra þá von með helgihaldi, fræðslu og þjónustu. Vetrarstarf Dómkirkjunnar hefst með fjölskylduguðsþjónustu sunnudaginn 3. september þar sem væntanleg fermingarbörn og foreldrar þeirra eru boðin velkomin til fermingarstarfa vetrarins. Einnig hefst sunnudagaskólinn þá í umsjón Ólafs Jóns og Sigurðar Jóns. Eftir messu er boðið upp á kaffi og samtal í Safnaðarheimilinu, Lækjargötu 14. Opið hús í Safnaðarheimilinu hefst þann 21. september. Þar verður sem fyrr fjölbreytt dagskrá, fræðandi og skemmtileg samvera. Byrjað er með veislukaffi kl. 13.30 og í framhaldi af því fyrirlestur til fræðslu og skemmtunar, og svo samræður á eftir. Að venju mun efnt til haustferð- ar opna hússins og verður hún fimmtudaginn 28. september. Um þessar mundir eru tímamót í sögu Dómkirkjunnar, séra Hjálmar Jónsson lét af embætti sóknarprests og séra Sveinn Valgeirsson var skipaður í hans stað. Nýr dómkirkjuprestur tekur svo við embætti við hlið hans 1. október. Messur eru alla helgidaga kl.11 og barnastarf verður á sama tíma á kirkjuloftinu. Æðruleysismessur eru mánaðarlega. Bænastundir eru alla þriðjudaga kl. 12 og einfaldur málsverður á eftir. Æskulýðsfélagið Ungdóm, Kirkjunefnd kvenna Dómkirkjunnar starfa yfir vetrarmánuðina og prjónakvöld eru mánaðarlega. Bach tónleikar Ólafs Elíassonar eru öll þriðjudagskvöld kl. 20.30 til 21.00 Nánari upplýsingar um dagskrá Dómkirkjunnar má finna á domkirkjan.is og á fésbókarsíðu. Hjartanlega velkomin í gott samfélag í Dómkirkjunni. Taktu á móti blessun haustsins: Verði loftið tært í kringum þig, uppskera þín ríkuleg, dagarnir góðir og friðsælar nætur.
Laufey Böðvarsdóttir, 27/8 2017 kl. 22.44