Dómkirkjan

 

Kristur er upprisinn! Það er hin forna kveðja páskanna. Allt frá hinum fyrsta páskamorgni. Nú endurómar hún um víða veröld, á ótal tungumálum. Og vekur gleði og von í hjörtum manna. Og svarið: Kristur er sannarlega upprisinn! Við höfum líka mörg séð dæmi um mátt upprisu og vonar í vonlausum aðstæðum, bara ef við gefum því gaum, upprisukraftaverkum stórum og smáum. Um það vitna þau sem biðu ósigur og allt var komið í þrot en fundu styrk þess æðri máttar sem gaf þrótt til að rísa upp og horfast í augu við daginn með von. Og enn og aftur verkar gleðifrétt páskanna sem afl sáttargjörðar, umhyggju og friðar. Sem knýr fólk áfram að lifa lífi góðvildar og miskunnsemi mitt í ógn og angist öryggisleysis, ofsókna og ofbeldis, og þreifar á afli og mætti þess. Kristur er upprisinn! Það er frétt sem við fáum að játa í trú og reiða okkur á í von og vitna um með lífi umhyggju og kærleika meðan Guð gefur lífdaga á jörðu og fá að sjá og reyna í krafti sínum að eilífu, á þeim eilífa morgni þar sem lífið fagnar, því dauðinn er ekki framar til, hvorki harmur, neyð né kvöl, hið fyrra er farið. Og Guð hefur þerrað hvert tár af augum. Kristur er upprisinn! Gleðilega páska.

IMG_2022

Laufey Böðvarsdóttir, 15/4 2017 kl. 18.21

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS