Dómkirkjan

 

Helgisetur frá upphafi byggðar

Dómkirkjan í Reykjavík er arftaki kirkju þeirrar, sem fyrst reis í Reykjavík, á hinni fornfrægu jörð Ingólfs Arnarsonar og stendur í raun enn þar innan túns. Hér verður því haldið fram, að þar hafi kirkja verið reist skömmu eftir kristnitökuna árið 1000. Reykjavík hefur því verið kirkjustaður hátt í þúsund ár. En hefði hún getað verið helgisetur, áður en íbúar hennar tóku kristna trú?

Segja má, að trú sé vitund um yfirmannlegt afl, æðra drottinvald, guðleg yfirráð. Trúarbrögð eru talin hafa fylgt manninum frá upphafi vega og eru af mörgum álitin meðal þess, sem greinir hann frá dýrunum. Hann virðist frá upphafi taka tillit til þessa æðra afls og dýrka það með ýmsum hætti. Þess vegna er það í raun öruggt, að þótt frumbyggjar Reykjavíkur hafi ekki játað kristna trú, þá hafi þeir samt ekki verið trúlausir. Þeir hafa án efa tignað goðmögnin að sínum hætti með ákveðnum helgisiðum. Um þetta er þó fátt vitað og síst í smáatriðum, en sitthvað hafa menn reynt að álykta út frá þeim heimildum, sem til eru.

Einn meginþátturinn í sögn Landnámabókar af upphafi byggðar í Reykjavík er trúarlegs eðlis. Er það frásögnin af reki öndvegissúlna Ingólfs, sem hann á að hafa tekið sem guðlega tilvísan um, hvar hann skyldi taka sér bólfestu.(1) Og Landnáma leggur áherslu á, að Ingólfur hafi verið mikill trúmaður.(2)

Um fáeina landnámsmenn er það sagt, að þeir hafi verið kristnir, en mikill meirihluti þeirra virðist hafa játað önnur trúarbrögð, sem í dag eru oft nefnd hin forna norræna trú. Um þau trúarbrögð gegnir svipuðu máli og um landnámið. Heimildir okkar um þau eru til orðnar hundruðum ára eftir að trúarbrögðin liðu undir lok.

Heimildarmennirnir eru því kristnir. Þegar litið er á þessi mál af sjónarhóli nútímans, þá virðist sem greina megi hina fornu norrænu trú í tvo meginþætti. Annars vegar er trúin á goðin, sú sem venjulega er nefnd ásatrú. Hins vegar er einhvers konar vættatrú. Menn hafa ekki aðeins blótað hin heiðnu goð, heldur einnig sérkennileg náttúrufyrirbæri, fossa og hóla, stokka og steina og ekki síst ýmsar vættir.(3) Um blótathafnir er lítið vitað. Talið er þó, að blótin hafi bæði getað verið einkaathöfn og samfélagsleg.(4)

Rætt er um tvenns konar blótstaði, hof og hörga. Hvorugt þekkja menn nú til hlítar. Hörgarnir eru þó taldir eldri að uppruna.(5) Hörgur hefur bæði getað verið blótstaður undir berum himni, steinaltari og raunverulegt blóthús, sem aðgreindi sig ekki frá hofi, nema e.t.v. í því, að þar hafi ekki verið guðamyndir. Með orðinu “hof” er á íslensku venjulega átt við heiðið musteri fyrir dýrkun hinna fornu, norrænu goða. Fornleifarannsóknir á meintum fornum hoftóftum hafa þó ekki sannað neitt í því efni. Þær virðast flestar vera leifar venjulegra skálabygginga eða annars slíks.(6) Enda hallast nú ýmsir að því, að menn hafi e.t.v. fært guðunum fórnir á einhverjum sérstökum blótstað, en haldið svo til blótveislu í stórum, vel búnum skála heima á bæ goðans, sem blótinu stýrði.(7)

Íslensk fornrit nefna oft öndvegissúlur, sem virðast yfirleitt hafa verið tvær á hverjum stað. Þær hafa trúlega staðið sín hvorum megin við öndvegið, tignarsæti höfðingja, og er þeirra getið bæði á heimilum og í hofum. Þess er stundum getið, að á þær hafi verið skornar guðamyndir. Það er því eðlilegt, að mikil helgi væri á slíkum gripum, og samkvæmt sögunum var Ingólfur ekki einn um að láta þær velja sér bústað. Líklegt er talið, að súlurnar hafi verið tengdar átrúnaði á veraldarmeiðinn og hin helgu lífstré. Þær hafa því, að líkindum, gegnt þýðingarmiklu hlutverki í hinni fornu ásatrú.(8)

Svipuðu máli gegnir um öndvegissúlur og annað í hinni fornu norrænu trú. Þar liggur ekki allt ljóst fyrir. Hugsanlega hafa þær verið hluti af öndveginu sjálfu, hinu veglega sæti. Hitt mun ekki síður líklegt, að þær hafi verið hluti máttarviða hússins, sem þær prýddu. Oft er talið, að öndvegi hafi verið fyrir miðjum langvegg. Þar hefði því átt að vera súlnapar það, sem bar uppi miðju skálans, og var grundvallað í jörð.(9)

Miðað við nútímaþekkingu á trúarbragðasögu er það nánast sjálfsagt, að maður úr andlegu umhverfi Ingólfs Arnarsonar hafi framkvæmt einhverja blót- eða helgiathöfn til þess að helga nýtt landnám, sáningu þar og uppskeru og tryggja stuðning goðmagnanna við mannlíf allt. Það mun ekki síst hafa byggst á þeirri trú, að goðmögnin væru hinir upphaflegu landsdrottnar. Af þeim var landið tekið að léni, og miklu skipti, að það væri rétt gert. Það gat skipt sköpum um hamingju manna og velferð.(10)

Menn munu hafa mismunandi skoðanir á sanngildi sagna um rek öndvegissúlna. Hafstraumar liggja þannig, að hugsanlegt er talið, að sagan um súlur Ingólfs geti verið rétt. Á 1100 ára afmæli Íslands byggðar var gerð alvarleg tilraun til að kanna þetta. Fjölmörgum vel merktum “súlum” var kastað í sjó suður af landinu sumarið 1974. Engin þeirra fannst rekin í Reykjavík eða nágrenni hennar. Þessi tilraun afsannar þó ekki neitt, þar sem styrkleiki strauma er mismunandi milli ára, og því hefði þurft að gera fleiri tilraunir.(11) En e.t.v. kemur annað til greina í þessu máli. Hugsanlegt er, að sagnir um rek öndvegissúlna séu ýktar útgáfur fornra minna um athöfn, er tákna skyldi landtöku guðanna. Landnámsstaðurinn hafi þá verið valinn fyrst, en síðan hafi myndir heimilis- og ættargoðanna verið látnar reka þar að af skömmu færi. Þannig hafi goðin verið látin hverfa til samfélags við vættir landsins á táknrænan hátt og helga með þeim hætti land og landnám.(12)

Athyglisverð er sú fullyrðing Landnámu, að öndvegissúlur Ingólfs séu enn “í eldhúsi” (eldhús getur merkt “skáli”) í Reykjavík.(13) Það gæti vissulega þýtt, að þær hafi enn verið þar, þegar Landnámuritun hófst á 12. öld. Þær hafa þá að vísu verið um 250 ára gamlar, en slíkt getur átt sér stað. Má t.d. benda á, að hinar svonefndu Bjarnastaðahlíðarfjalir eru taldar hafa verið um 800 ára gamlar, er þær voru teknar úr árefti og fluttar á Þjóðminjasafn Íslands.(14)

Engar sagnir eða minjar eru um hof eða hörg í Reykjavík. En fyrsti landnámsmaðurinn hlýtur strax að hafa útbúið sér guðsdýrkunarstað. Einhvern veginn virðist líklegt, að þar hafi verið um hörg að ræða og þá undir berum himni, a.m.k. fyrst í stað. Sé í dag litast um í næsta nágrenni Reykjavíkurbæjarins forna og hugað að líklegum blót- eða guðsdýrkunarstað, þá koma einkum tveir staðir til greina. Annar þeirra gæti verið Arnarhóllinn, þar sem Landnámabók segir öndvegissúlurnar hafa rekið að landi. Hann er staðurinn, sem alla tíð hefur gnæft yfir hin fornu tún Reykjavíkur. Þar hefur þó verið vindasamara en niðri á sléttum vellinum heima við hlaðvarpann. Sá staður kemur einnig til greina. Þar var og heimilið hið næsta og stutt að fara til blótveislunnar í eldaskála Reykjavíkurbæjarins, þar sem hugsast getur, að öndvegissúlurnar hafi lengi staðið sem innviðir.

Talið er, að afkomendur Ingólfs hafi farið með embætti svonefnds allsherjargoða, en hann hafði það hlutverk, samkvæmt fornum, germönskum sið, að helga Alþing ár hvert, þ.e. setja það með ákveðnum helgisiðum og e.t.v. slíta því einnig.(15) Þorsteinn Ingólfsson hefur trúlega verið þeirra fyrstur. Sonur hans var Þorkell máni. Hann hafði auk þess lögsögu fimmtán sumur, árin 970-984.(16) Þormóður goði var sonur hans. Hvergi er sagt, að þeir Þorkell og Þormóður hafi búið í Reykjavík, en þó er almennt talið, að svo hafi verið. Þormóður var allsherjargoði árið 1000 og mun því hafa helgað sjálft kristnitökuþingið.(17) Ljóst er af heimildum, að Reykjavík hefur verið höfðingjasetur á fyrstu öld Íslands byggðar. Hitt virðist jafnljóst, vegna þess hve fáum sögum fer af þessum höfðingjum, að þeir hafa lítt komið við deilur og því trúlega setið á friðarstóli í Reykjavík.

Helstu höfðingjar á Íslandi á fyrstu öldum byggðar þess höfðu tvíþættu hlutverki að gegna. Annars vegar höfðu þeir veraldlegt vald, hins vegar bar þeim skylda til forystu um guðsdýrkun og helgihald. Þetta sést best af orðinu goði, sem var tignarheiti æðstu höfðingjanna. Það heiti er talið merkja upphaflega for

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS