Dómkirkjan

 

Saga kirkjunefndar kvenna Dómkirkjunnar

Saga Kirkjunefndar kvenna Dómkirkjunnar
Dagbjört G. Stephensen

Kirkjunefnd kvenna Dómkirkjunnar Sextíu ára saga

Fimmtíu ára afmæli Kirkjunefndar kvenna Dómkirkjunnar varð mér hvati til þess að skrá sögu hennar. Ég hélt í fyrstu, að þetta yrði ekki erfitt verk, þar sem allar fundargerðabækur eru til, og ekki þyrfti annað en að renna í gegnum þær og raða síðan liðnum atburðum fallega upp. Þetta reyndist þó ekki svona einfalt. Hálf öld, og rúmlega það, er ekki langur tími þegar miðað er við sögu kirkju eða þjóðar. En einmitt þessi 60 ár hafa verið tími mikillar og örrar þróunar í íslensku safnaðarlífi, og þar hafa konur og samtök þeirra komið mjög við sögu. Meginhluti þessarar samantektar er erindi, sem ég flutti á 50 ára afmælisfundi Kirkjunefndarinnar, sem haldinn var á heimili mínu og eiginmanns míns, sr. Þóris Stephensen dómkirkjuprests, að Hagamel 33 í Reykjavík. Ég bætti fáeinum atriðum við, er ég endurflutti söguna á 60 ára afmælisfundi nefndarinnar í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar við Lækjargötu 1990. Þar er þó ekki um fulla úttekt að ræða síðasta áratuginn. Við það tækifæri kom frú Auður Daníelsdóttir, eiginkona sr. Jakobs Ágústs Hjálmarssonar dómkirkjuprests, fram með þá uppástungu að birta þessi skrif mín á heimasíðu Dómkirkjunnar. Forráðamenn kirkjunnar hafa tekið í sama streng. Því legg ég þetta fram hér sem meginhluta sögu félagsskaparins í sextíu ár. Ég hef litlar breytingar gert á erindinu, leyft því að halda sem mestu af þeim svip, er það bar við upphaflegan flutning þess á 50 ára afmælisdaginn, 25. september 1980. Upphafið er að finna í gerðabók synodus, prestastefnunnar, árið 1929, en þar segir: ,,Tillaga frá kirkjumálanefnd, skipaðri af biskupi (Jóni Helgasyni) fyrr á synodusárinu, kemur fram. Kirkjumálanefndina skipuðu sr. Þorsteinn Briem, sr. Jón Guðnason, sr. Sveinbjörn Högnason, ennfremur tveir leikmenn, Jónas Þorbergsson ritstjóri og Runólfur Björnsson. Tillagan hljóðar svo: „Prestastefnan telur heppilegt að í hverri sókn sé kosin sérstök nefnd sóknarnefndinni til aðstoðar til að vekja hlýjan hug manna til kirkju sinnar og gangast fyrir frjálsum samskotum um að fegra hana og prýða, meðal annars með góðum gripum og hvern þann veg er best þykir við eiga. Telur prestastefnan áhugasamar konur best fallnar til þess að skipa sæti í nefndinni.”" Sóknarnefnd Dómkirkjunnar brást skjótt við þessum tilmælum prestastefnunnar. Í fundargerðabók sóknarnefndar 4. nóvember 1929 er meðal annars bókað: ,,Oddviti (formaður sóknarnefndar var þá Sigurbjörn Á. Gíslason) vakti máls á áskorun frá synodus í sumar um að kosin væri nefnd í söfnuðinum, svokölluð ,,kirkjunefnd” er hefði sérstaklega á hendi að beita sér fyrir því, er verða mætti kirkjunni til skrauts og prýði. Samþykkt að mæla með því að safnaðarnefndin kjósi slíka nefnd.” Næsta skref í málinu kemur í ljós í fundargerð sóknarnefndar Dómkirkjusafnaðarins 20. maí 1930. Þar segir: ,,sr. Friðriki Hallgrímssyni og Sigmundi Sveinssyni falið að undirbúa kosningu kvennanefndar í söfnuðinum fyrir aðalsafnaðarfund og útbúa lista yfir þær konur, sem nefndin mælir með við kosninguna.” Talað var um kosningu sjö kvenna. Á aðalsafnaðarfundi 9. júní 1930 var gerð svofelld bókun: ,,Kom þá til umræðu tillaga sóknarnefndar um kosningu sjö kvenna í kirkjunefnd. Mælti oddviti (Sigurbjörn Á. Gíslason) fram með tillögunni og var hún samþykkt í einu hljóði. Las oddviti fyrir fundinn nöfn 16 kvenna, sem talað hafði verið við um að þær tækju sæti í slíkri nefnd og höfðu lofað því. Kom fram að sóknarnefnd yrði falið að velja konur í söfnuðinum í nefnd þessa og var sú tillaga samþykkt í einu hljóði.” Á sóknarnefndarfundi 17. júní 1930 í húsi KFUM og K var þetta bókað: ,,Þá var kosin kirkjunefnd samkvæmt samþykkt síðasta aðalfundar, til þriggja ára og hlutu þessar konur kosningu: frú Áslaug Ágústsdóttir, Lækjargötu 12 frú Bentína Hallgrímsson, Skálholtsstíg 2 frú Guðrún Guðlaugsdóttir, Fjölnisvegi 5 frú Jósefína Lárusdóttir, Suðurgötu 4 frú Júlíana Guðmundsdóttir, Miðstræti 10 frú Þórdís Jónsdóttir, Njarðargötu 47 frk. Þórhildur Helgason, Tjarnargötu 26 Til vara voru kosnar: frú Emelía Sighvatsdóttir frú Katrín Jónsdóttir, Urðarstíg 9 frú Oddný Stefánsdóttir, Bárugötu 35 frú María Sigurðardóttir, Suðurgötu 22 frú Sigrún Bjarnason, Tjarnargötu 18 frú Steinunn Pétursdóttir, Ránargötu 29 frú Unnur Erlendsdóttir, Unnarstíg 4.”   Sóknarnefnd Dómkirkjunnar hélt fund með nefndarkonum 4. september 1930 á hinu nýja elliheimili, Grund. Ræddu sóknarnefndarmenn þar við kirkjunefndarkonur um þarfir Dómkirkjunnar. Matthías Þórðarson þjóðminjavörður „lýsti þörf á betri, samróma klukkum og á því, að lagt væri linoleumgúmmí eða annað á kirkjugólfið, en teppi á kórgólfið. Bentína Hallgrímsson minnti á ýmislegt fleira, lýsingu kirkjuklukkunnar, dúk á gangana, leiðbeinendur við athafnir, sálmabækur við aðalinnganginn og fleira. En hvar væri fjeð? Dómkirkjuprestur kvað æskilegt, að nefndin safnaði fje með frjálsum samskotum.” Á fundinum kom einnig fram, að Þórdís Jónsdóttir, sem kjörin hafði verið í aðalnefnd, og Katrín Jónsdóttir, sem hafði verið kosin til vara, höfðu beðist undan nefndarstörfum. Var þá tilnefnd í aðalnefnd Anna Zimsen og til vara Þuríður Pétursdóttir. Kirkjunefnd kvenna Dómkirkjunnar (skammstafað KKD) hélt fyrsta fund sinn 25. september 1930 á heimili frú Bentínu og sr. Friðriks Hallgrímssonar að Skálholtsstíg 2. Var hún á þeim fundi kosin fyrsti formaður nefndarinnar, en Emelía Sighvatsdóttir ritari og Þórhildur Helgason gjaldkeri. KKD var því í upphafi aðeins sjö konur og aðrar sjö til vara. Kirkjan var þá í eigu íslenska ríkisins og var eina þjóðkirkjuhúsið í Reykjavík. Sóknarnefnd hafði úr að spila sóknargjöldum þjóðkirkjufólks í heilu bæjarfélagi. Samt virðist rík þörf hafa verið fyrir stuðning, og það starf, sem þessar konur hófu, gjörbreytti kirkjunni bæði utan og innan og skapaði öllu safnaðarlífi betri aðstöðu. Saga þessara hluta er í rauninni mikil baráttusaga, sem einkennst hefur af þrotlausri elju, dugnaði og bjartsýni samfara trú á gott og þarft málefni. Þegar gjörðabækurnar eru lesnar, kemur í ljós, að starfið hefur ekki verið unnið í stórum áföngum, heldur hafa verið stigin jöfn og þétt skref, sem stöðugt hafa skilað jákvæðum árangri. Þetta gerir söguna hins vegar fjölþættari og því erfiðari frásagnar, ekki síst viðvaningi eins og mér. Ég vildi þó ekki gefa verkefnið upp á bátinn, í þeirri von, að þetta gæti gefið okkur, sem skipum nefndina í dag, meiri vitneskju um það starf, sem forverar okkar hafa unnið, og varðveitt um leið minningu þeirra. Hér skulum við aðeins staldra við og hyggja að því, hvaða markmið þessar konur setja starfi sínu og hvaða leiðir þær hyggjast fara til þess að gera hugsjón sína að veruleika. Markmið nefndarkvenna er að fegra kirkjuna með fleiri og betri kirkjumunum, auknu hreinlæti, blómum á altari og með því að efla á annan hátt hátíðleika guðsþjónustunnar. En allt kostaði þetta peninga og til fjáröflunar var ákveðið að halda kirkjutónleika, sem urðu drjúg tekjulind um allmörg ár. Svo bættust við fleiri fjáröflunarleiðir, sem nánar verður getið síðar. Í byrjun ákváðu konurnar að hittast einu sinni í mánuði. Fundirnir voru haldnir til skiptis á heimilum þeirra, en þó oftast hjá frú Bentínu. Nokkrir fundir voru haldnir hjá frú Theódóru Sveinsdóttur veitingakonu. Seinna varð hús KFUM og K aðalfundastaður um langt árabil. Þá voru oft haldnir fundir í Oddfellowhúsinu. Síðari árin voru þeir einnig að Hallveigarstöðum, í húsnæði Kvenskátafélagsins, og hjá prestkonunum, áður en kirkjuloftið komst í fullt gagn. En það er nú (1980 og allt til 1990, er Safnaðarheimilið við Lækjargötu var fullgert) okkar fasti fundarstaður. Eins og áður er sagt var ein varakona fyrir hverja aðalnefndarkonu. Varakonur voru ekki boðaðar á fundi nema í forföllum aðalnefndarkvenna til að byrja með. Þær voru fyrst boðaðar allar þegar bazarstarf hófst 1935. Árangur af starfi nefndarinnar kom fljótt í ljós. Blóm prýddu altari Dómkirkjunnar á hverjum sunnudegi og fyrstu starfsár nefndarinnar var miklum fjármunum varið í blómakaup. Þau eru tiltölulega minni í dag. Strax um haustið 1930 réð kirkjunefndin hreingerningakonu til aðstoðar kirkjuverði og greiddi henni 30 krónur á mánuði. Ennfremur fékk hún tvo guðfræðinema, gegn ákveðinni þóknun, til þess að vísa til sætis og líta eftir í kirkjunni við guðsþjónustur. Á Þorláksmessu 1930 komu konurnar saman í kirkjunni til að skreyta hana með blómum og greni. Hefur sá siður haldist fram á þennan dag. Fyrstu árin mun frú Anna Hallgrímsson blómakaupmaður stundum hafa gefið blómin og grenið. Fyrir þessi sömu jól (1930) gáfu konurnar einnig teppi í kirkjuna. Ekki verður séð hvers konar teppi það var, en verð þess var kr. 827,80. Jafnframt gáfu þær blómavasa á altari. Tekjurnar til þessa komu frá tvennum kirkjutónleikum, sem haldnir voru 4. nóvember og 9. desember 1930 og gáfu af sér samtals 1097krónur. Næstu fimm árin voru haldnir tvennir tónleikar á ári, eitt árið reyndar þrennir. Alltaf var seldur aðgangur, en tekjur af tónleikunum fóru minnkandi, og eftir 1941 fóru þeir eitthvað að strjálast. Fyrstu árin virðast þetta eingöngu hafa verið orgeltónleikar. Síðar bættist við einsöngur, kórsöngur og fleiri hljóðfæri, og 1934 var Jón Helgason biskup fenginn til þess að flytja erindi. Þannig hefur fjölbreytni smám saman aukist. Gaman er að virða fyrir sér, hve náið og gott samstarf var á milli kirkjunefndarinnar og Sigfúsar Einarssonar og síðar dr. Páls Ísólfssonar og hve mikla fórnfýsi báðir þessir menn sýndu. Þá er einnig athyglisvert, að undirbúningur tónleikanna hvíldi mikið á herðum frú Áslaugar Ágústsdóttur mörg fyrstu árin, þótt fleiri góðar konur kæmu þar við sögu. Níunda febrúar 1953 kom frú Ólafía Einarsdóttir fram með þá hugmynd að halda kirkjutónleikana framvegis 1. sunnudag í jólaföstu. Var það samþykkt og 1961 var ekki lengur seldur aðgangur, en blindu fólki og vistmönnum á Grund boðið sérstaklega. Voru aðventukvöldin okkar þar með komin í það horf, sem við nú þekkjum. Konurnar höfðu einnig mikinn áhuga á því að fegra næsta umhverfi kirkjunnar. Haustið 1932 voru settir blómlaukar í kringum minnisvarða Hallgríms Péturssonar og áhugi var fyrir því að gróðursetja einnig meðfram allri suðurhlið kirkjunnar. Konurnar fengu því til leiðar komið, að húsameistara ríkisins var falið að teikna girðingu, sem var reist vorið 1933 og greidd úr sjóðum ríkis og kirkju. Hins vegar greiddu konurnar alla vinnu við sjálfan garðinn. Meðal annars settu þær niður 500 blómlauka, og 1934 keyptu þær sláttuvél til þess að slá í kringum kirkjuna. Nefndin bar allan kostnað af garðinum fram til 1964, en þá mun Reykjavíkurborg hafa tekið við. Tuttugasta og þriðja nóvember 1933 var fyrst rætt um að efna til bazars, til þess að auka nefndinni tekjur, en meðgöngutími þessarar hugmyndar varð nokkuð á annað ár, því að fyrsti bazarinn var haldinn í húsi KFUM og K 1. mars 1935. Inn komu kr. 782,31, kostnaður kr. 77,31. Svo góðum árangri náðu þær þó ekki aftur, fyrr en hagur Reykvíkinga fór að batna á stríðsárunum. Auglýst var eftir munum á bazarinn, og nú voru varanefndarkonur kallaðar til starfa. Uppfrá þessu var bazarinn árviss liður í starfi nefndarinnar, oftast haldinn á áðurnefndum stað, í húsi KFUM. og K til ársins 1954. Sjötta apríl það ár var hann haldinn í Góðtemplarahúsinu. Þá brá svo við að tekjur af bazarnum hækkuðu um meira en helming eða úr kr. 4008,69í kr. 8635,82. Árið eftir var einnig haft happdrætti, sem enn jók tekjurnar. Nítjánda nóvember 1961 var kirkjunefndin með sína fyrstu kaffisölu í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll. Var það samkvæmt tillögu frú Dagnýjar Auðuns. Kaffisalan gaf í tekjur kr. 17.581,60. Var sagt, að rausnarlegur heimilisbragur hefði ríkt í Sjálfstæðishúsinu þann dag. Árið eftir var kaffisalan í veitingahúsinu Glaumbæ í boði frú Áslaugar Sivertsen. Bazarinn var þá enn haldinn í Góðtemplarahúsinu. Árið 1963 var kaffisalan aftur í Sjálfstæðishúsinu, sem þá hét Sigtún, og í þetta sinn var líka bazar þar með, en annar bazar hafði verið haldinn fyrr á árinu. Árið 1964 voru bazar og kaffisala sameinuð í veitingahúsinu Tjarnarlundi, sem stóð á horni Tjarnargötu og Kirkjustrætis, og frá 1965 til 1978 var þetta í Tjarnarbúð í Oddfellowhúsinu. Oftast mun happdrætti hafa verið haft með. Tvö síðustu árin hefur kaffisalan verið á Hótel Loftleiðum ásamt sölu á páskaföndri og fleiri smávörum, sem konurnar hafa unnið. Síðustu árin hefur bazarinn verið haldinn í Casa Nova í M.R. Síðan 1976 hefur verið haldinn kökubazar í Hallveigarstöðum í vikunni fyrir hvítasunnu. Voru heimaræktuð pottablóm stundum þar með. Þetta skilaði allgóðum tekjum og ekki spillti það, er Bræðrafélagsmenn ,,bökuðu” með okkur síðastliðið vor. Eitt af því fyrsta, sem konurnar gáfu kirkjunni voru blómavasar, eins og áður er frá sagt, en þeir eru orðnir æði margir í áranna rás, því að blómavasar eru forgengilegir hlutir. Þar í eru að minnsta kosti tvær minningargjafir, sem farið hafa um hendur kirkjunefndarinnar til Dómkirkjunnar. Sex stálvasar, handunnir, komu frá Sveinbirni Jónssyni og fjölskyldu hans til minningar um mág hans, Sigurð Björnsson frá Veðramóti, fyrrverandi safnaðarformann. Sveinbjörn gaf einnig síðar tvo söfnunarbauka, sem lengi voru í forkirkjunni. Kristalsvasarnir tveir, sem gefnir voru 1978, eru frá þeim mæðgum Bryndísi Jónsdóttur og Þorgerði Þorgilsdóttur til minningar um Sigríði Þorgilsdóttur veitingakonu. Fyrir hvítasunnu 1932 gaf nefndin tvö rykkilín og hún hefur gefið öll rykkilín, sem kirkjan hefur eignast síðan. Einnig tvenna skrúða með öllu tilheyrandi, en frú Ólína Rasmusson gaf hlut í öðrum þeirra. Þriðja hökulinn lét K.K.D. gera upp og gaf að auki tvær stólur. Á sínum fyrstu árum gaf nefndin allmikið af teppum í kirkjuna. Ekki er nú hægt að gera sér grein fyrir, hvers konar teppi það hafa verið, trúlega renningar á ganginn í kirkjuskipinu og á gólfið í kórnum fyrir neðan kórtröppur. Þegar farið var að flytja erindi á kirkjutónleikunum vantaði ræðupúlt, og gaf nefndin þá púlt það, sem notað var til 1977. er nýtt var smíðað. Eldra púltið var teiknað af Jóni Halldórssyni. Þá hefur nefndin gefið að minnsta kosti tvo altarisdúka. Hið fagra altarisklæði, sem nú er notað, gaf hún 1956 og altarisbrúnina 1958. Laugardaginn 17. október 1959 voru altarisstjakarnir 4 og róðukrossinn afhentir við sérstæða, hátíðlega athöfn. Þá hefur nefndin gefið kirkjunni sýningarvélar bæði fyrir kvikmyndir og skuggamyndir. Frú Júlíana Erlendsdóttir bauðst til þess að gefa andvirði 10 kyrtla handa söngfólki, gegn sama framlagi frá kirkjunefndinni. Var því tekið og kyrtlarnir svo keyptir og teknir í notkun á hvítasunnu 1970. Þegar hin mikla viðgerð á kirkjunni hófst í ársbyrjun 1977 varð að sjálfsögðu mikil þörf fyrir peninga og hefur nefndin síðan lagt fram kr. 3.150.000 til þess verks. Þar af krónur 600.000 til kaupa á húsgögnum í skrúðhúsið. 150 eintök af nýju sálmabókinni hefur nefndin gefið kirkjunni. Einnig nú á síðustu árum 50 Passíusálma og 10 kóralbækur. Barna- og æskulýðsstarf safnaðarins hefur hlotið lítils háttar fjárstyrk og keyptar hafa verið barnasálmabækur og æskusöngvar. Þá fékk Óratóríukór Dómkirkjunnar eitt sinn nokkurn fjárstyrk, 25.000 krónur. Fimmtíu þúsund krónur voru gefnar í Vestmannaeyjasöfnunina á sínum tíma og 75.000 krónur til Hjálparstofnunar kirkjunnar til handa þroskaheftum. Merkur kafli í starfi félagsins er Líknarsjóður Dómkirkjunnar. Frú Elísabet Árnadóttir kom fram með hugmyndina að stofnun hans á fundi í nefndinni 5. mars 1964. Árið eftir teiknaði frú Ágústa Snæland minningarspjöldin, sem Guðjón Ó. Guðjónsson hefur prentað nefndinni að kostnaðarlausu, og voru þau fyrstu seld við útför séra Bjarna Jónssonar 24. nóvember 1965. Fyrst var veitt úr sjóðnum 1967. Þá voru krónur 22.000 í sjóði og var úthlutað 5.000 krónum til Verndar og öðrum 5.000 krónum til Geðverndar. Frú Elísabet Árnadóttir, sem lengst var formaður sjóðsins, gerði góða grein fyrir starfi hans í Safnaðarblaðinu ár hvert og vísa ég til þess. Geta má þess, að á síðasta aðalfundi kom fram í skýrslu formanns sjóðsstjórnar að á því ári var úthlutað krónum 75.000 til Þorbjargar Óskarsdóttur, krónur 25.000 til Verndar og 100.000 krónum til Sundlaugarsjóðs lamaðra og fatlaðra, krónum 250.000 til Skálatúns og nú nýlega var samþykkt að gefa í Sjónvarpssjóð fyrir þroskaheft börn í Garðabæ krónur 100.000. Auk tekna af sölu minningarspjaldanna hefur sjóðurinn fengið góðar gjafir og sum árin drjúgar tekjur af blómasölu á Lækjatorgi. Þann 14. maí 1954 kom fram tillaga um kaup á 45 fermingarkyrtlum. Var tillagan samþykkt og kosin nefnd til þess að annast framkvæmdina. Var frú Elísabet Árnadóttir formaður hennar. Kyrtlarnir voru fyrst notaðir við fermingu 1955 og var leiga fyrir hvern kyrtil þá 30 krónur. Nefndin starfaði áfram ötullega, bætti við kyrtlum og lét meðal annars smíða hengi fyrir þá. Árið 1962 átti kirkjan 233 kyrtla og munu fáir hafa bæst við síðan, enda ekki þörf á. Auk þeirrar fjáröflunar, sem þegar hefur verið nefnd, vil ég geta þess, að haustið 1931 gaf frú Margrét Zoëga kirkjunni jólakort, sem seld voru í búðum, og oft síðan hefur nefndin haft nokkrar tekjur af kortasölu. Árið 1973 lét nefndin gera myndskreyttan bækling um Dómkirkjuna. Séra Jón Auðuns samdi textann. Bæklingurinn er bæði á íslensku og ensku og er seldur ferðafólki. Frú Elísabet Gunnarsson ánafnaði kirkjunni skautbúning og möttul árið 1941. Var það selt samkvæmt ósk hennar og var andvirði þess fjórtán hundruð krónur. Um langt árabil átti nefndin 4 fjórðungsmiða í Happdrætti Háskóla Íslands. Sagt er frá tveimur vinningum: 125 krónum árið 1938 og kr. 62,85 árið 1946. Ánægjulegur þáttur í starfi K.K.D. tilkominn á seinni árum, er sú þjónusta, sem konurnar hafa veitt eldri borgurum í Reykjavík í samvinnu við Félagsmálastofnunina. Árið 1968 hófst fótsnyrting í Hallveigarstöðum og var þar til 1986, er hún fékk inni í húsakynnum Rauða krossins í Tjarnargötu 35 árið 1976. Árið 1969 fóru nokkrar nefndarkonur að veita aðstoð við tómstundastarf fyrir gamla fólkið og gera það ötullega enn í dag.
Eins og nafn félags okkar bendir til var í upphafi aðeins um venjulega nefnd að ræða. Ég hef þegar rakið hvernig varanefndarkonur komu einnig til stafa, þegar farið var að vinna fyrir bazar 1935 og virðast fara að starfa meira með eftir það. Sóknarnefndin mun hafa endurskipað í nefndina nokkrum sinnum, en brátt fóru nefndarkonur sjálfar að afla nýrra samstarfskvenna. Hugmyndin um að stofna kvenfélag kom þó snemma fram eða í nóvember 1933. Ekki varð úr framkvæmdum, en aftur var rætt um þetta í tvígang árin 1941 og 1942 og var sóknarnefnd þá beðin að hafa forgöngu í málinu. Hlutirnir virðast hins vegar hafa þróast þannig, að konurnar fóru sjálfar að reyna að fá fleiri til starfa. Í fundargerð 28. febrúar 1944 er eftirtektarvert að nýjar ,,félagssystur” eru boðnar velkomnar. Virðist nú af því mega ráða, að í hugum kvennanna sjálfra hafi þá raunar verið orðið um félag að ræða. Ekki sýnist það þó hafa gengið of vel í byrjun því að 1951 og 1953 eru aðeins taldar 12 konur í nefndinni. Árið 1961 hafði þeim hins vegar fjölgað í tuttugu og fimm og á 50 ára afmælinu 1980 var fjörutíu og ein kona skráð í félagið, afar samstæður og vinnuglaður hópur. Ég sagði þá, að gleðjast myndum við yfir fleiri félögum. Og á 60 ára afmælinu vorum við orðnar fimmtíu og fimm. Árið 1945, eða þar um bil, voru ákveðnir mánaðarlegir vinnufundir til þess að vinna fyrir bazarinn og „halda við viðkynningu kvennanna” eins og það er orðað. Þess var þó býsna langt að bíða, að kirkjunefndin eignaðist félagslög. Að tillögu frú Dagnýjar Auðuns var á aðalfundi 1966 kosin laganefnd. Skilaði hún frumvarpi, sem síðan var samþykkt á næsta aðalfundi, 7. maí 1967. Með samþykkt laganna var skrefið stigið til fulls og nefndin orðin að raunverulegu félagi, enda í lögunum margoft nefnt orðið ,,félag”. Það gefur auga leið að félagstarfið hlýtur að hafa eflst að mun við það að fá kirkjuloftið, sem fastan samastað. Fyrsti fundur þar var haldinn 23. maí 1962 við all-ófullkomnar aðstæður og var þá enn langt í land, að þar skapaðist viðunandi félagsaðstaða. Fundir voru því oft haldnir annars staðar allt fram til ársins 1968. Eftir það höfum við ekki þurft að leita annað. Sóknarnefnd sá um sjálfa innréttinguna á loftinu en Kirkjunefndin hefur lagt til húsbúnað allan að heita má: borð, stóla, orgel, skápa, eldhúsinnréttingu og áhöld, spegla og handþurrkukassa á snyrtingar, sem voru tvær, einnig síma. Þá lét nefndin seinna gera uppþvottaklefa, þar sem önnur snyrtingin var.  Þetta litla ,,safnaðarheimili” gjörbreytti aðstöðu allra, sem fyrir kirkjuna unnu. Til þess að gera 60 ára sögu KKD enn betri skil en ég gerði á áður nefndum tveimur afmælum, læt ég fylgja hér með orðréttan kafla úr bókinni Dómkirkjan í Reykjavík, sem gefin var út á 200 ára afmæli kirkjunnar 1996. Þar segir svo: „Dagbjört G. Stephensen hafði forgöngu um stofnun Orgelsjóðs Dómkirkjunnar árið 1980. Var stofnfé ein milljón gamalla króna. Sjóðurinn fékk tekjur af sölu minningarspjalda og að öðrum leiðum ýmsum, enda efldist hann skjótt. Í allt lagði Kirkjunefndin sjálf til milli sjö og átta hundruð þúsunda nýkróna í Orgelsjóðinn og samtals komu í hann um ein milljón og níu hundruð þúsundir króna til kaupa á hinu nýja orgeli. Er orgelmálið var að baki, var næsta baráttumál safnaðarheimili í grennd kirkjunnar. Fyrsta framlag Kirkjunefndarinnar í Safnaðarheimilissjóð var afhent 1987, að upphæð 300 þúsund krónur. Eftir að málið komst á rekspöl lögðu konurnar því enn frekara lið og gáfu á árunum 1990 – 1994 rúmlega eina milljón króna til kaupa á húsgögnum og öðrum búnaði heimilisins.”
Við erum að minnast (50 ára) afmælis. Það er þó ekki fyrsta afmælistilhaldið í sögu félagsins okkar. Þegar nefndin var 15 ára var farið í skemmtiferð til Þingvalla í boði sóknarnefndar, með bílum frá Steindóri. Á 25 ára afmælinu bauð sóknarnefnd aftur til Þingvalla og kom sú ferð í stað árlegs sumarferðalags, sem farið hefur verið síðan 1953. Tuttugu og fimm ára afmælisfundurinn var hins vegar haldinn á heimili frú Dagnýjar og sr. Jóns Auðuns dómprófasts í Garðastræti 42. 30 ára afmælið var haldið hátíðlegt í Klúbbnum 21. nóvember 1960. Á því afmæli gáfu konurnar kirkjunni silfurkönnu undir messuvín, smíðaða af Óskari Gíslasyni gullsmið og gáfu þau hjón, hann og frú Gréta, sem er félagi í Kirkjunefndinni, stóran skerf af vinnunni við smíði könnunnar. 1. september 1970 (40 ára afmæli) fóru kirkjunefndarkonur í sumarferðalag og borgaði sóknarnefndin bílinn. Á sjálfan afmælisdaginn 25. september bauð frú Ásta Björnsdóttir til hófs á heimili sínu og eiginmanns síns Hjartar Hjartarsonar kaupmanns að Reynimel við Bræðraborgarstíg. Þá bárust kirkjunefndinni að gjöf tveir áletraðir silfurkertastjakar frá Sigurði Pálssyni til minningar um Þórdísi Jónsdóttur frá Ánanaustum. Hann gaf einnig krónur 25.000, sem voru notaðar til þess að kaupa eikarskápinn fallega, sem nú er á kirkjuloftinu. Fjörutíu og fimm ára afmælis var minnst í sumarferðalagi og þá bauð nefndin félagskonum og nokkrum gestum til hádegisverðar að Skógum undir Eyjafjöllum. Nú á hálfrar aldar afmæli okkar hefur verið ákveðið að gefa Dómkirkjunni lampa og mottu á skrifborð í skrúðhúsi og 6 rykkilín. Rykkilínin eru ekki tilbúin en gjafirnar munu verða afhentar sóknarnefnd, þegar allt er komið, ásamt einhverri peningaupphæð, sem ekki er endanlega ákveðin. Eins og þið hafið vafalaust tekið eftir, hef ég lítið gert að því að nefna nöfn. Það er erfitt að gera upp á milli, því að allar hafa konurnar lagt mikið af mörkum, hver eftir sinni getu og aðstæðum. Ég tel þó rétt að geta hér formanna: Frú Bentína Hallgrímsson frá 1930-1946, frú Áslaug Ágústsdóttir frá 1946-1951, frú Dagný Auðuns fyrst óslitið 1951-1965. Frú Elísabet Árnadóttir var kosin fyrsti varaformaður K.K.D. 1952. Hún gegndi formannstörfum í forföllum frú Dagnýjar 1964, en frá 1965 komst á sá háttur að prestskonurnar voru formenn til skiptis tvö ár í senn. Í dag hefur lögunum verið breytt. Prestkonurnar sitja nú við sama borð og aðrir félagar. Sú, er þetta ritar, sætti sig aldrei við þessa gamaldags mismunun og gekkst fyrir því að fá þessu breytt. Það var gert í tveimur áföngum og loks tókst að fá lögunum breytt til jafnréttis allra félagskvenna. Við frú Salóme Eggertsdóttir, kona sr. Hjalta Guðmundssonar dómkirkjuprests, vorum formenn til skiptis í nokkur kjörtímabil, en síðan lögunum var breytt hafa frú Auður Garðarsdóttir og núverandi formaður (1990) frú Bergþóra Jóhannsdóttir einnig verið kjörnar til forystu. Við minnumst í dag með virðingu og þökk allra þeirra ágætu kvenna sem slóðina tróðu. Sýnist mér á engan hallað þótt ég nefni þar sérstaklega nafn frú Bentínu Hallgrímsson. Hún átti neistann, sem kom af stað því starfi, sem nú hefur þróast í 50 ár og hiti og þungi fyrstu starfsáranna hvíldi að sjálfsögðu mikið á hennar herðum. Ég vil einnig leyfa mér að þakka innilega öðrum fyrrverandi formönnum og ykkur öllum, sem í dag skipið K.K.D. og hafið sýnt og sýnið enn sömu fórnfýsina og dugnaðinn sem fyrirrennararnir. Vonandi verða sem lengst til slíkar konur. Verkefnin eru óþrjótandi. Allar þökkum við hjartanlega þeim mikla fjölda fólks, sem sýnt hefur okkur stórkostlega rausn og hjálpsemi í gegnum árin. Þar er einnig erfitt að nefna nöfn, svo margir koma þar við sögu. En nöfn alls þess fólks, sem götu okkur hefur greitt, eru skráð á spjöld sögu okkar og í þakklátum hugum. Við biðjum Guð að blessa það og launa að verðleikum. Guð blessi KKD og alla aðra, sem fyrir kirkjuna vinna. Megi starf okkar fyrst og fremst bera vitni um sterka og heilbrigða trú á Guð og allt, sem gott er og fagurt

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS