Dómkirkjan

 

Prédikanir

Prédikun Karls Sigurbjörnssonar, biskups 2. ágúst 2015
Þau eru óneitanlega erfið orð guðspjallsins í dag. „Beiskur ertu, Drottinn minn,“ sagði kellíngin forðum. Beisk og erfið eru orð Jesú um þjóninn sem „..tekur að berja þjóna og þernur…” Maður á erfitt með að ímynda sér slíka þjóna á síðum guðspjallanna, að Jesú skuli til hugar koma að þá sé að finna í hópi játenda sinna og lærisveina. Og hörð eru viðbrögð húsbóndans í sögunni gagnvart þeim þjóni, … „sem veit vilja húsbónda síns og hirðir ekki um að hlýða honum“ og mun barinn mörg högg. Jú, myndir ofbeldisins eru margvíslegar. Það þekkir Jesús, og það þekkjum við líka. Þær eru líka að finna innan hins kristna samfélags og menningar sem um aldir hefur verið mótað af kristnum gildum. Hvernig má það vera?
En í upphafi guðspjallsins spyr Jesús: „Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður…?“ Við skulum hlusta á þá spurningu og taka hana til okkar. Ráðsmaður er sá eða sú sem trúað er fyrir verðmætum, eða málefni, að gæta, ávaxta fyrir eigandann, húsbóndann. Jesús notar þessa líkingu iðulega um samskipti Guðs og manns; hlutverk mannsins í húshaldi Guðs er ráðsmennska. Það er mikilvægt hugtak sem vert er að gefa gaum. Hvað eigum við sem við höfum ekki þegið? Og hvað er það sem við þurfum ekki að skila af okkur þegar allt kemur til alls? Skila af okkur í hendur lífinu og höfundi þess og húsbónda. Ráðsmenn, það erum við, við höfum þegið verðmæti sem okkur eru á hendur falin til að gæta, ávaxta í þágu annarra, jafnvel sem við þekkjum ekki, höfum ekki séð, munum aldrei sjá.
„Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður?“ spyr Jesús. Hann spyr um trúmennsku í smáu sem stóru. Hann spyr um trúmennsku þeirra sem kölluð eru til forystu í þágu annarra á ólíkum sviðum samfélagsins. Hann spyr um heilindi og trúmennsku lærisveina sinna og leiðtoga þeirra, kristninnar í heiminum okkar, okkar sem vitum, eða eigum að vita vilja húsbóndans, Guðs, en hirðum augljóslega ekki um hann. Hann spyr um þetta upp og ofan hversdagsfólk sem hann á öðrum stað nefnir salt jarðar og ljós heimsins, sem gengur að verkum sínum á vettvangi dagsins öðrum til góðs og gæfu. Og hann spyr um leiðtoga kristninnar sinnar: Hvernig gæta þau skyldu sinnar? Þau, við sem falin hefur verið á hendur ráðsmennska yfir boðskap Jesú Krists og þeirri iðkun og athöfn sem heldur nafni hans á lofti og skal laða til fylgdar við hann? Okkur er mikið gefið. Hvernig gætum við ráðsmennskunnar, hvernig skilum við af okkur því sem okkur hefur verið léð? Hvernig höfum við sinnt ráðsmennskunni, við sem ættum að þekkja vilja húsbóndans? Ættum við ekki hvert og eitt að líta í eigin barm þegar leitað er svara við því? Okkur hefur verið mikið gefið og af okkur mun mikils krafist. Það fer ekki milli mála.
Jesú er heitt í hamsi í orðum guðspjallsins þegar hann sér að þjónninn „tekur að berja þjóna og þernur“. Vegna þess að þeir einstaklingar og samfélag, sem hann vill móta og reisa heiminum til heilla, bregst við á annan hátt. Hann lýsir því í upphafi Fjallræðunnar: Fátækir í anda, friðflytjendur, hógværir, sorgmæddir yfir neyð og hörmum, miskunnsamir, hjartahreinir, hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, gleðjast og fagna í andstreymi og ofsóknum.
Það er alveg ljóst að þetta allt á undir högg að sækja í samtíðinni, samtíð sem hefur úthýst Guði og rær að því öllum árum að bægja mynd og áhrifum Jesú Krists frá hinum ungu. Trú er álitin til ills eins.
Sagnfræðingurinn Will Durant fullyrti að ekki væri að finna neitt marktækt dæmi í mannkynssögunni um samfélag sem tekist hafi að viðhalda siðgæði án aðstoðar trúarbragða. Og bætir við: „Mikilvægasta spurning okkar tíma er hvort mannkynið geti lifað af án Guðs.“ Það eru umhugsunarverð orð og áleitin spurning hins vitra manns. Hið almennt viðurkennda viðhorf okkar daga að það sé tæknilausn á meir og minna öllum mannlegum vanda það er ekkert nema meinafræði græðgi og drottnunar. Og leiðir í ógöngur.
Munum orð Helen Keller, þeirrar merku konu. Hún var einn merkasti vottur liðinnar aldar um sigur mannsandans, umhyggjunnar, lífsins. Hún sagði eitt sinn: „Vísindin hafa ef til vill fundið lausn við flestum meinum, en þau hafa ekki fundið neina lausn við því sem verst er – sinnuleysi manna um hag náungans.“ Það eru umhugsunarverð orð.
Oft leitast menn við að beita tækninni til að móta betri heim, án þess að við þyrftum að verða betri manneskjur. En það nær skammt. Með allri virðingu fyrir fyrrverandi borgarstjóra og aðdáun hans á heimspeki, eins og hann lýsti í grein í Fréttablaðinu á dögunum og sem hann taldi að ætti að koma í stað trúarinnar. Grein hans birtir sannarlega skefjalausa sleggjudóma gegn trú og kristni. Og í blaðinu í gær bætir hann heldur betur í fordómaflauminn. Nei, með allri virðingu fyrir honum og heimspekinni, þá gerir hún út af fyrir sig fólk ekki að betra fólki, ekki fremur en tæknin, né hvers konar hugmyndafræði. Nei, það megnar kærleikurinn einn, kærleikurinn til Guðs og náungans. Og það læra menn ekki af bókum, ekki einu sinni af góðum bókum. Nei. Það þarf annað og meira að koma til. Kærleikur er alltaf tengsl, persónutengsl og samskipti
„Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður…?“ Þetta er spurning Jesú til okkar. Okkur eru falin verðmæti á hendur sem eru lífsspursmál heiminum okkar. Það er boðskapur og lífsviðhorf, trú og hyggindi, viðmót og verk, sem gera frið og sátt, miskunnsemi og réttlæti eftirsóknarverðari lífsgildi en að afl og auð; það er Jesús Kristur og fagnaðarerindi hans. Þótt borgarstjórinn fyrrverandi fullyrði að Jesús hafi aldrei komið til Íslands, þá vitum við betur. Hann hefur verið hér á ferð í þúsund ár og enn kallar hann, leitar, laðar til fylgdar við sig. Meistarinn, frelsarinn krossfesti og upprisni. Og við sem höfum heyrt, við erum kölluð til að fylgja honum, að læra af honum, elska hann, leitast við að líkjast honum í umhyggju, mildi, mannúð, miskunnsemi. Já, það er okkur falið, það er okkur léð. Engin viðmið eru traustari en boðskapur hans, engin markmið skýrari fyrir hið góða líf og heilbrigða samfélag en mynd hans og fordæmi. Engin aflvaki máttugri en andi og áhrif kærleika hans.

Hvernig stuðlum við að betra heimi, að friði og sátt? Við heyrðum eitt svar við því í lexíu dagsins þar sem Amos spámaður segir:„Hatið hið illa og elskið hið góða, eflið réttinn í borgarhliðinu.“ Þetta á við um Reykjavík sem og Jerúsalem. Það er skýrskotun til samfélagsins, kerfisins, stjórnmálanna, og einstaklinganna, okkar hvers og eins. Og það snýst ekki bara um stóru línurnar og háleitu markmiðin og hugsanirnar og samræðurnar og heimspekina, heldur viðhorf, breytni, orð og verk, umgengni við þau sem á vegi okkar verða frá degi til dags, á vettvangi hversdagsins í umgengni við náungann. Og þar gegnir barnatrúin ómetanlegu hlutverki, það sem sáð er í sál barnsins af virðingu fyrir því háa og djúpa, fagra, sanna og góða, Jesú mynd, Jesú nafn, Jesú orð.
Emerich Roth hét Gyðingur nokkur, sem helgaði líf sitt því að berjast gegn kynþáttahatri og ofbeldi. Hann var einn þeirra sem lifðu af Auschwitz, en missti þar foreldra sína, þrjár systur og fjörutíu nána ættingja aðra. Í blaðaviðtali var hann spurður hvaða hlutverk hann myndi óska sér að hafa leikið í veraldarsögunni. Þá svaraði hann: „Ég hefði viljað vera barnakennari lítils drengs sem leið ofbeldi og einelti og er nú heimsþekktur og alræmdur fyrir grimmd og mannhatur, og hét Adólf Hitler.“
Hvernig stuðlum við að friði og sátt í menningu og samfélagi? Með því að skapa því skilyrði í umhverfinu. Og hvernig gerir maður það? Áreiðanlega ekki með yfirlýsingum og skilgreiningum. Og alls ekki með reiði, afbrýðissemi, ágirnd eða hatri. Heldur með kærleika, opnum huga og einlægni. Og með skaphafnarmótun, miðlun og ræktun sem að því stuðlar.

Skáldið góða, Jón úr Vör, segir:
Stillt vakir ljósið
í stjakans hvítu hönd,
milt og hljótt fer sól
yfir myrkvuð lönd.

Ekki með orðaflaumi
mun eyðast heimsins nauð.
Kyrrt og rótt í jörðu
vex korn í brauð.

Norsk þingkona var í viðtali í ríkisútvarpinu norska. Með henni í stúdíóinu var sonur hennar, fimm-sex ára. Eftir að hafa rætt um málefni ríkisstjórnar og þings spurði fréttamaðurinn hvað hún ætlaði að gera í sumarleyfinu. Jú, fjölskyldan ætlaði að dvelja á grískri eyju sem hún hafði dvalið á undanfarin sumur og þar sem þau þekktu orðið íbúana og umhverfið. „Og hvað gerir þú þar?“ spurði fréttamaðurinn strákinn: „Ég leik mér.“ „Við hvern?“ „Við hann Androutsos.“ „Kann hann norsku?“ „Nei.“ „En talar þú grísku?“ „Nei!“ „Nú, hvernig getið þið þá leikið ykkur saman þegar þið skiljið ekki hvorn annan?“ Þögn. Það var greinilegt að hann skildi ekki spurninguna. „Ég á við, hvernig getið þið leikið ykkur saman þegar þið talið tvö ólík tungumál?“ Spurði fréttamaðurinn, og strákurinn svaraði hægt en með raddblæ sem gaf í skyn að svarið var ekkert nema sjálfsagt: „Við bara byrjum…!“ Við bara byrjum! Sæll er sá þjónn er húsbóndinn finnur breyta svo er hann kemur.
Dýrð sé Guði…..

Prédikun séra Þóris Stephensen
í Dómkirkjunni
sunnudaginn 8. mars 2015

Í kirkju þína kenn þú mér
að koma Drottinn, sem mér ber,
svo hvert sinn, er ég héðan fer,
ég handgengnari verði þér.
Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Ég hlýt að þakka það traust, að mér skuli trúað fyrir að prédika hér, þegar söfnuðurinn minnist 85 ára starfs Kirkjunefndar kvenna Dómkirkjunnar. Mér er þetta afar kært, því úr engri átt annarri fékk ég meiri stuðning við starf mitt hér. Nefndin var þá í raun orðin að kvenfélagi. Það var aldrei fjölmennt, rétt um 50 konur, en starfið var stundað af þvílíkum dugnaði og fórnfýsi, að á betra varð ekki kosið. Andinn var þannig, að það var kirkjan ein, sem í huga var og unnið fyrir, – hin andlega aflstöð, sem þjónaði bæði söfnuði sínum og landinu öllu sem dómkirkja Íslendinga. Hún þurfti og þarf að vera sterk, vera sú borg á bjargi traust, sem bæði er virki og skjól kristninnar í landinu. Undir þeim hvatningarorðum hefur lengi verið unnið.
En nú að guðspjallinu, sem lesið var hér áðan. – Það er svolítið óvenjulegt. Það er kona sem talar. Hún er greinilega móðir og hefur hrifist svo af kenningu Jesú, að hún óskar þess, að hún hefði sjálf mátt bera hann undir belti, fæða hann til lífs og ljóss, gefa honum brjóst og koma honum til manns. Hún finnur til í líkama sínum, sem hún þráir að gera að verkfæri Guðs, og mega þannig gefa það sem í hennar valdi stendur til þess að Guðsríkið, sem hafði verið til umræðu, mætti eiga greiðari leið inn í misgóðan mannheiminn.
Og Jesús tekur hana nánast á orðinu: Já, því sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það.
Takið eftir, að þetta eru sömu orðin og skráð eru gullnu letri hér á prédikunarstólinn og við höfum því ætíð fyrir augum, hvað sem sá segir, er stendur hér og prédikar. – En hvað segir hún okkur þessi áletrun, sem upphaflega var svar við fúsleik góðrar konu um að leggja Guðsríkinu lið?
Nýja testamentið talar um Jesú sjálfan sem Orðið, með stórum staf, Orðið sem varð hold og bjó með oss. Þetta Orð var í upphafi hjá Guði og var líka Guð. Í því var líf og lífið var ljós mannanna. Þetta Orð, sem prédikunarstóllinn boðar, geymir í senn sköpunarmátt guðdómsins og það ljós og líf sem honum fylgir. Kristur líkti boðskap sínum einnig við frækorn. Þegar því er sáð í góða jörð, ber það allt að hundraðfaldan ávöxt. Hann líkti honum sérstaklega við mustarðskornið, sem er hverju sáðkorni smærra en verður samt að tré, þar sem fuglar himinsins gera sér hreiður.
Að heyra Guðs orð og varðveita það. Það er að hlusta á boðskapinn, taka mark á honum og fara með hann eins og annað það sem þér þykir vænst um í lífinu, það sem þú veist að þú getur ekki án verið, vilt alls ekki missa.
Í rauninni eigum við sjálf, hvert og eitt að vera lifandi orð, sýna það í verki, að við erum fylgjendur Krists, viljum vera trú honum í orði og sannleika. Þannig eigum við að vera sáðkorn Guðsríkisins.
Það var kona, sem kallaði á þessi orð Krists, ekki einn af postulunum. Þeir voru karlmenn, enda þjóðfélagsskipun öll þá á þann veg, að það var nauðsynlegt fyrir framgang boðskaparins. En konan umrædda gæti samt hafa verið lærisveinn í yfirfærðri merkingu þess orð. Guðspjöllin tala oft um konur í hópnum, sem fylgdi Kristi. Markús guðspjallamaður getur þess, að við kross hans hafi þrjár nafngreindar konur horft á álengdar. Þær höfðu fylgt honum og þjónað, er hann var í Galíleu. Og hann segir: Þar voru margar aðrar konur, sem höfðu farið með honum upp til Jerúsalem. Móðir Markúsar, átti loftsalinn, þar sem Kristur hélt síðustu kvöldmáltíðina. Því er slegið föstu, að hún hafi verið efnuð kona, jafnvel með sjálfstæðan atvinnurekstur.
Það er ekki langt síðan menn fóru að gera því skóna hér á landi, að konur hafi gegnt mikilvægum hlutverkum fyrir Jesú og lærisveinana, er þeir ferðuðust um landið í um það bil þrjú ár. En þeir þurftu mat og það þurfti að þvo af þeim. Hverjir sáu um þá hluti á þessum tíma? Mestmegnis konur.
Karlaveldið var lengi mikils ráðandi í íslensku kirkjulífi. Reyndar má segja, að það hafi haldist í hendur við þjóðlífið í heild. Orðið postuli verður, held ég, best þýtt með orðinu boðberi, en lærisveinn er námsmaður. Með það í huga skynjum við, að íslenskar konur hafa um aldir ekki verið síðri postular en lærisveinar. Yfirleitt sáu þær um boðunina til barnanna, kenndu bænirnar, sögðu Biblíusögurnar, kölluðu fram kærleikann í orði og verki, voru hann sjálfar holdi klæddar margar, svo ríkar af þeirri sjálfselskulausu fórnfýsi, sem ætíð kemur síðust að borði. Þannig hafa þær verið lifandi orð og okkur svo dýrmætar, að við höfum æðimörg varðveitt anda þeirra og minningu meðal þess, sem okkur þykir vænst um í lífinu, það sem við getum ekki án verið og viljum síst missa.
Það hlaut enda svo að fara, að konur kæmu æ meira að kirkju- og trúmálum. Fyrsta konan, sem kosin var í sóknarnefnd Dómkirkjunnar var Anna Lovísa Thoroddsen, dóttir Péturs Guðjohnsen dómorganista. Það var 1908, en 1959 var frú Ólafía Einarsdóttir á Hofi við Sólvallagötu kosin formaður sóknarnefndar, fyrst kvenna. Í dag þykir sjálfsagt, að í fjórtán manna safnaðarforystu sé helmingurinn konur. Nú hefur framförin í jafnréttismálunum orðið með þeim ágætum að konur standa jafnfætis körlum i prestsstarfi og tveir af þremur starfandi biskupum eru konur. Annar þeirra, frú Agnes, varð fyrsti kvenpresturinn hér við Dómkirkjuna, starfaði hér þau fjögur ár, sem hún var æskulýðsfulltri Þjóðkirkjunnar
En upphaf Kirkjunefndarinnar má rekja til samþykktar Prestastefnu Íslands árið 1929. Hún taldi „heppilegt, að í hverri sókn sé kosin sérstök nefnd, sóknarnefndinni til aðstoðar, til að vekja hlýjan hug manna til kirkju sinnar og gangast fyrir frjálsum samskotum um að fegra hana og prýða m.a. með góðum gripum og hvern þann veg, er best þykir við eiga. Telur prestastefnan áhugasamar konur best fallnar til þess að skipa sæti í nefndinni.“
Sóknarnefnd Dómkirkjunnar brást snarlega við, ræddi málið fram og aftur, valdi sjö nefndarkonur og jafnmargar til vara. Formlegur stofnfundur var haldinn 25. september 1930 á heimili þeirra Bentínu og sr. Friðriks Hallgrímssonar. Frú Bentína var kosin fyrsti formaður nefndarinnar, Emelía Sighvatsdóttir ritari og Þórhildur Helgason gjaldkeri. Ég fer ekki mikið nánar út í sögu nefndarinnar hér, henni eru gerð prýðileg skil á heimasíðu Dómkirkjunnar, www. domkirkjan.is.
En ég er líka heimild. Ég er ekki nema ári yngri en nefndin, fæddur í Dómkirkjusókninni, uppalinn af kirkjuræknum foreldrum og snemma áhugasamur um umhverfi mitt. Við vorum í Dómkirkjusöfnuðinum til 1940, er honum var skipt og Hallgríms-, Laugarness- og Nesprestaköll urðu til. Fjölskyldan bjó eftir það í Nessókninni, en er ég var kominn í Menntaskóla togaði Dómkirkjan æ meira í mig. Þó nokkur ár eftir skiptinguna var hún enn eina þjóðkirkjuhúsið í borginni. Kirkjusóknin var svo mikil, að reynt var að koma sætum fyrir í hverju skoti og fjalir lagðar milli bekkjanna á svölunum. Þótt reynt væri að þrífa hana vel og mála hana oft að innan, var hún fljót að lýjast á ný.
En það var svo undraskjótt, sem allt umhverfi hér fór að breytast eftir tilkomu nefndarinnar. Sérstaklega var það kórinn, sem tók stakkaskiptum. Þá voru ætíð blóm á altari, nýir altarisgripir komu og æ fegurri skrúði, sem glöddu augu og hugi. Teppi með sérstöku Dómkirkjumynstri gerðu allt hlýlegra. Fyrir æskulýðs- og félagsstarf var keypt allt sem til þurfti. Aðventukvöldin eiga og sinn uppruna hjá þeim. Líknarmálum var líka vel sinnt.
Aðalfjáröflunarleiðirnar voru basarar, sem voru ótrúlega stórir miðað við fjölda kvennanna, en gáfu líka vel. Svo voru það einnig kaffisöludagarnir.
Þegar farið var í endurnýjun kirkjunnar hið innra kom ótrúlega mikið af fjármagninu frá konunum. Þær stofnuðu líka Orgelsjóðinn með milljón króna gjöf og notuðu sín sambönd til að fá Alþingi einnig að þeim málum. Organistarnir unnu einnig afar fórnfúst starf fyrir þær. Eitt sinn komu óvænt upp erfiðir en tímabundnir erfiðleikar varðandi fjárhag kirkjunnar. Þá var ekki beðið boðanna, en strax blásið til basars, sem ásamt fyrirliggjandi sjóði kvennanna bjargaði málunum.
Þetta starf var allt unnið af miklum myndarskap. Á kaffisöludögum var byrjað með messu kl. 2, þar sem þjóðkunnir leikmenn stigu í stólinn, jafnt karlar sem konur. Svo fóru allir í kaffisöluna, sem lengi var á Hótel Loftleiðum. Oftast var lítill basar þar með og jafnvel happdrætti með góðum vinningum. Sagt var um þessa daga, að rausnarlegur heimilisbragur hefði verið þar á öllum hlutum.
Þegar ég kom hingað sem prestur 1971 og konan mín gerðist virkur félagi, þá var það ekki bara, að ég væri sendur út og suður um allar þorpagrundir, til fanga fyrir bazarana, af því að ég þekkti svo víða til í fyrirtækjum, heldur eignaðist ég félagskonurnar margar að nánum vinum. Þar urðu til djúpstæð tengsl bæði i sameiginlegri trúfesti við kirkjuna og boðskap hennar og ekki síður á persónulegum grunni. Samfélagið hér uppi á kirkjuloftinu, þar sem starfið fór lengst fram, áður en Safnaðarheimilið kom, var afar ríkt af gleði og góðum hug og a.m.k. einu sinni stigum við dansspor þar uppi.
Mig langar að segja ykkur örstutta sögu. Hún er um stúlku, sem hélt á stálpuðum dreng, sem ekki gat gengið. Aðkomumaður spurði hana: Er þetta ekki erfitt fyrir þig vina mín? Svar hennar var stutt og einlægt: Hann er bróðir minn.
Þessi örsaga er sterkur vitnisburður um fórnfúsan kærleika, þar sem hugarfar Krists er fyrirmyndin og orkugjafinn. Hún hefur átt sér ríkan samhljóm hér. Og það segir okkur allt sem segja þarf um starf Kirkjunefndar kvenna Dómkirkjunnar, hvers virði það er og hefur verið, og má því ekki niður falla. Það er ekki bara þörf kirkjunnar, sem þarna er um að ræða, heldur einnig hugarfarið, það lifandi Guðs orð, sem þarna hefur verið bæði heyrt og varðveitt. Ég hef oft bent á, þegar ég hef talað í þjónustuklúbbum eins og Rotary, Lions og fleirum, að þjónustuhugsjónin í samfélagi okkar á rætur sínar fyrst og fremst í gjörð Jesú, þegar hann þvoði fætur lærisveinanna fyrir kvöldmáltíðina á skírdagskvöld. Hann tók þar að sér óvinsælasta hlutverkið í heimilisstörfunum, sem þeir ætluðu að koma sér hjá. Óhreinindi og táfýla hverfa ekki nema fyrir hreinu vatni. Það er heldur ekki nema eitt, sem getur látið myrkrið í samfélaginu víkja. Það er ljósið. Konurnar hér í Dómkirkjunni hafa valið ljósið. Það er þeirra góði hluti.
Það sem ekki er Guðs ættar í lífinu verður að illgresi. Ætli við getum ekki orðið um það sammála, að fylgd mannkyns við Krist hefur of lengi og of víða verið hálfkák eitt, á meðan sú fagnaðarríka staðreynd blasir við, að það er hægt að umbreyta mannlegu lífi til miklu jákvæðari gilda með því að heyra Guðs orð og varðveita það.
Sagt hefur verið, að þannig uppgötvi menn nýja stjórnmálastefnu, ekki valdsins, heldur þjónustunnar. Nýja hagfræði, sem hefur rúm fyrir fórnarviljann. Nýja félagsfræði, ekki þá sem dregur menn í dilka eftir einhverjum formúlum, heldur félagsfræði bræðralagsins. Og þá uppgötva menn einnig nýja siðfræði, ekki þá sem byggð er á eigin hagsmunum, heldur þá sem setur bróðurelskuna nr. eitt, elsku þess manns, sem gefur sjálfan sig öðrum til góðs og verður þannig sterkur hlekkur í stöðugri, endurnýjandi sköpun Guðs, eilífri áætlun hans um betri heim.
Þetta minna þau á saman Ritningin og Kirkjunefndin hér í dag. Guðs orð er jákvæðið í lífinu, ljósið sem getur látið myrkrið víkja. Þess vegna skal og á það minnt bæði með prédikun dagsins og alla daga með hinni gullnu áletrun, sem ætíð talar, þótt við mennirnir skiljum það kannski ekki nógu vel, að sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það.
Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Takið hinni postullegu kveðju: Náðir Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með ykkur öllum. Amen.

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS