Dómkirkjan

 

Prédikun Karls Sigurbjörnssonar í Dómkirkjunni í dag, síðasta sunnudag eftir trinitatis, 21. nóvember 2021. Saga er sögð af gömlum hjónum sem stóðu í bankanum og virtu fyrir sér klukku þar á vegg sem sýndi tímann á mismunandi stöðum í heiminum: þegar klukkan er tólf í Reykjavík er hún 7 í New York og 21 í Tokyo og 14 í Moskvu, og karlinn leit á kerlu sína og sagði: Já, mikil guðsblessun er það nú að búa hér í þessu litla landi, þar sem klukkan er tólf þegar hún er tólf! Já, víst getum við samsinnt því. Það er gott að búa í þessu landi og vita að klukkan er tólf þegar hún er tólf – eða þannig. Það er mikilvægt að vita hvað tímanum líður og umfram allt að skilja og skynja tímanna tákn, vita hvað klukkan slær. Það gerði alla vega hann Jón gamli í Króki. Þegar klukkan á stofuhillunni sýndi þrjú þá sló hún sjö og þá vissi hann Jón gamli að klukkan var á slaginu hálf níu! En svo var það líka klukkan í Brekkukoti Halldórs Laxness. Hún stóð á gólfinu í litlu stofunni og tif hennar sagði: Eilíbbð, eilíbbð. Og Laxness segir: „Það var skrítið að ég skyldi uppgötva eilífðina sisona laungu áður en ég vissi hvað eilífð var og jafnvel áður en ég hafði lært þá setningu að allir menn séu dauðlegir, já meðan ég lifði í rauninni í eilífðinni sjálfur.“ Svo mörg voru þau orð. Og þá erum við komin að textum dagsins sem er tíminn og eilífðin. „Time is running out!“ Sagði Guiterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á loftslagsráðstefnunni í Glasgow á dögunum. Tíminn er kominn, fresturinn að renna út! Við megum engan tíma missa. Það er boðskapur sem hljómar um alla heimsbyggðina nú og fer ekki framhjá neinum. Mannkyn lifir ögurstund, dómsdagur stendur fyrir dyrum, heimsendir handan við hornið. Það er líka grunnstefið í textum dagsins nú á síðasta sunnudegi kirkjuársins og þegar aðventa stendur við dyr. Við lifum reynslutíma, eða eigum við að kalla það prófraun? Á máli Biblíunnar kallast það vitjunartímar, það eru tímar endurmats. Jesús notaði það orð um borg sína, Jerúsalem, þegar hann grét yfir þeirri tortímingu sem hann sá fyrir að yrði hlutskipti hennar: „Þú þekktir ekki þinn vitjunartíma.“ Umliðna tuttugu og tvo mánuði höfum við lifað vitjunartíma sem heimsfaraldurinn er og mannkyn á enn langt í land með að bíta úr nálinni með, efnahagslega, já, pólitískt, já, félagslega, – já og ekki síst andlega. Andlega. Hvort tveggja, loftslagsváin og heimsfaraldurinn, eru viðvaranir til mannkyns, hastarleg áminning um varnarleysi mannsins og hve brothætt tilvera okkar er þrátt fyrir allt í okkar tæknivædda heimi. Því miður má gera ráð fyrir því að fyrirheit hinna auðugu og voldugu i Glasgow um stuðning við fátækar þjóðir mun reynast ámóta haldlítil hvað varðar orkuskipti nú og reyndin hefur verið með bóluefnin gegn kóvid. Þeim snauðu er einatt gleymt, það er gömul saga og ný. Það sannast enn sem fyrr að menn vilja yfirleitt leggja allt mögulegt á sig til að bjarga heiminum nema að breyta lífsháttum sínum. Það er dagljóst að við þurfum að endurmeta þann lífsstíl ofneyslu, sóunar og sjálflægni sem rekur mannkyn áfram í blindni. Það er í hæsta máta ósjálfbær orkugjafi. Þetta hefur lífsviska kynslóðanna reyndar alltaf vitað og varað við. Þetta vissu þeir Job og Pétur sem við heyrðum í lexíu og pistli dagsins, já og og Jesús. Við megum engan tíma missa, enginn veit sína ævina fyrr en öll er. En viðvaranir þeirra eru bornar uppi af VON, fullvissu reyndar, að lífið, heimurinn, jörðin, er í Guðs góðu hendi. Og benda á þann andlega og siðferðislega orkugjafa sem aldrei þrýtur og er Orð Krists og andi, orkulind umhyggjunnar. Slíkt tal á nú ekki upp á pallborðið í dag. Nú er allt undir manninum komið og þarf ekki frekar vitnanna við. Í aldanna rás hafa dómsdagsspámenn og prédikarar sannarlega náð valdi yfir lýðnum með óttann að vopni. Það er eitt tímanna tákn um þessar mundir. Óttinn, kvíðinn og vonleysið sitja um sálirnar, og tortryggnin og reiðin sem einatt er auðvelt að virkja. Þekkjum við okkar vitjunartíma? Skiljum við tímanna tákn? Vitum við hvað klukkan slær? Okkur er svo ljóst, svo skelfilega ljóst þótt svo við gerum allt sem við getum til að slæva þá hugsun og flýja þá blasir við að glötun er möguleiki. Hroki veit á hrun, segir í bókinni helgu. Það staðfesta saga og samtíð. Hvers vegna leiðir mannhyggjan einatt til mannfyrirlitningar? Átti hún ekki einmitt að leiða til frelsis, þegar engin viðmið, enginn dómur er manninum æðri? Hvað stoðar það manninn að hann eignist allan heiminn en glati sálu sinni? Spurði Jesús forðum, frelsarinn. Hann sem kom til að lækna meinin og mannsins særðu sál. Frelsa manninn frá sjálfum sér. Sjálfum sér? Já! Syndinni. Hvað er að glata sálu sinni? Í erlendu blaði var sagt frá lækkandi fæðingatíðni í Evrópu. Rætt var við ungt fólk og sérfræðinga um ástæðu þess. Svarið var: „Okkur finnst ekki verjandi að fæða börn inn í þennan óttalega heim á heljarþröm! Það er engin framtíð. En, en samt, samt hefur mannkyn, samt hefur jörðin okkar, aldrei búið við betri skilyrði til að takast á við ógnir, vá og vanda og nú og búa ungviðinu betri framtíð. Aldrei hefur mannkyn búið yfir eins miklu afli og auði, þekkingu á og valdi yfir kröftum náttúrunnar og nú. Hvers vegna ráða kvíðinn og óttinn samt för? Hvers vegna þessi steingelda tómhyggja og vonleysi? Er það af því að menn heyra hvað klukkan slær en loka eyrum fyrir hljómi eilífðar í tímanum, heyra ekki orð Guðs? Sálin er sköpuð fyrir eilífðina, fyrir Guð. Marteinn Lúther var spurður hvað hann myndi gera ef hann vissi að heimsendir yrði á morgun. Hann svaraði því að hann færi út og gróðursetti eplatré. Merkilegt svar. Að gróðursetja tré er alltaf játning, að játast lífinu. Að bera barn í heiminn er að játast lífinu. Hvort tveggja krefst viðbragða umhyggjunnar. Við þörfnumst þess viðhorfs og þeirra viðbragða umfram allt. Að játast lífinu, Guði. „Það er nú heimsins þrautarmein að þekkja hann ei sem bæri…“ munum við væntanlega syngja á jólum er við fögnum komu frelsarans. Pétur Gunnarsson, rithöfundur, segir í einni bóka sinna: „Afstaðan til Guðs er stundum eins og til kennarans: maður horfir niður í borðplötuna til að verða ekki tekinn upp.“ Það er nú það. Samt komumst við ekki hjá því að verða „tekin upp“ fyrr eða síðar. Það er reyndar alltaf að gerast. „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér,“ segir Kristur. „Hver sem tekur á móti einu barni í mínu nafni tekur á móti mér,“ segir hann líka, Drottinn sem gerðist bróðir manna, svar Guðs við neyðarkveini jarðarbarna. Tökum eftir því sem Jesús segir í guðspjalli dagsins. Hann segist muni dæma heiminn, dæma lifendur og dauða, eins og kirkjan hans játar í trúarjátningunni. En munum líka að dómurinn hefur þegar verið kveðinn upp. Það var þegar mennirnir dæmdu Jesú Krist til dauða. Krossfestu kærleikann, lögðu trúna og vonina í klettagröf og settu innsigli valdsins fyrir steininn stóra. En Kristur sigrar. Trúin á Krist er siguraflið, sem sigra mun allt sem ógnar, allt sem deyðir og rýfur öll innsigli valdsins og hrokans. Þrátt fyrir allt þá er framtíð lífs og heims í hendi hans, tími og eilífð. Klukkan tifar. „Time is running out!“ Já, þar kemur að ár og dagar okkar líða undir lok. Öllu er afmörkuð stund. En hvað segir tifið í klukkunni? Eilíbbð, eilíbbð. Leggjum við hlustir. Þar kemur að rödd Krists berst að sljóum hlustum og ljós hans rýfur gráa vetrarþoku efans og vonleysisins og þá munu litbrigði himins og jarðar og mannlífsins glitra og harmljóð sköpunarinnar og hjartans snúast upp í lofgjörð lífsins. Hann segir: „…Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim sem sendi mig hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins.“

Laufey Böðvarsdóttir, 21/11 2021 kl. 15.02

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS