Dómkirkjan

 

Prédikun séra Elínborgar Sturludóttur 20. júní.

Kæri söfnuður.
Ég heilsa ykkur með kveðju postulans. Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Á dögunum var sagt frá því í fréttum að bandarískur veiðimaður, sem var að kafa eftir humri undan ströndum Cape Cod í Massachusetts, hefði lenti í hvalskjafti. En hann slapp sem betur fer með skrekkinn. Fyrst hélt humarveiðimaðurinn að hann hefði orðið fyrir hákarlsárás, en áttaði sig fljótlega á því að það væri ekki málið heldur væri hann staddur í hvalskjafti og að hvalurinn væri að að reyna að kyngja honum. En maðurinn var svo lánsamur að þegar hvalurinn gerði sér ljóst að hann hafði gleypt meira en hann réði við þá synti hann bara upp á yfirborðið og skyrpti honum út úr sér!
Þessi saga vakti strax hugrenningatengsl við söguna af Jónasi sem segir frá í Gamla testamentinu og mörg okkar þekkja. En í þeirri frásögn gleypti hvalurinn Jónas og spýtti honum svo á land, ekki eftir 30 sekúndur eins og í tilfelli humarveiðimannsins heldur eftir 3 daga!
Lexía dagsins í dag segir einmitt frá þessum sama Jónasi.
Spádómsbók Jónasar er í raun og veru ekki eiginlegt spámannarit heldur ævintýraleg saga af spámanninum Jónasi sem var nú engin sérstök hetja. Bókin er full af furðum sem minna einna helst á ævintýri. Aðalsöguhetjan Jónas er sendiboði Guðs sem fær það hlutverk að tala við íbúa borgarinnar Ninive sem eru ekki þeir dyggðugustu og það gerir hann, en mjög svo óviljugur og eftir mikla eftirgangsmuni.

Hann er á engan hátt manneskja sem maður ætti að taka sér til fyrirmyndar. Hann er í raun og veru andhetja.
Guð ætlar að fela honum ákveðið hlutverk en Jónas flýr frá verkefninu. Og þegar hann lendir í sjávarháska neitar hann að ákalla Drottin, en biður skipverjana að henda sér frekar fyrir borð! En Guð sér við því útspili og sendir hvalinn á svæðið til að gleypa Jónas og eftir að hafa verið í maga hvalsins í þrjá sólarhringa lætur hann loks af þvermóðsku sinni og hlýðir Guði og fer loksins til borgarinnar Ninive þar sem fólk býr sem þarf nauðsynlega að taka sinnaskiptum.

Og það sem gerir söguna m.a. svo ævintýralega er að enda þótt Jónas sé útlendingur í Ninive þá skilja borgarbúar hann strax og þótt hann komist ekki nema yfir 1/3 hluta borgarinnar þá sjá þeir strax að sér og iðrast í sekk og ösku, fasta og ákalla Guð og láta af sinni illu breytni.
Forherðing Jónasar kemur hins vegar fram í því að í stað þess að beygja sig undir vilja Guðs þegar hann lendir í stormviðrinu velur hann þann kost að skipverjarnir kasti sér í sjóinn sem þeir ekki gera fyrr en með eftirgangsmunum Jónasar og þá með bæn á vörum um að Drottinn fyrirgefi þeim. Þannig er guðsótta hinna útlendu skipverja stillt upp sem andstæðu við óhlýðni og þvermóðsku Jónasar.

Sama er að segja um íbúa Ninive. Þeir bregðast strax við boðskap Jónasar. Þeir auðmýkja sig og gera iðrun og yfirbót en Jónas verður hins vegar argur yfir miskunnsemi Guðs og forherðist enn. Í lok sögunnar er ekki enn ljóst hvort Jónas samþykkir sjónarmið Guðs enda svarar hann þeim aðeins með þögninni.
Hetjurnar í sögunni og þeir sem bregðast rétt við eru hinir útlensku sjómenn annars vegar og íbúar Ninive hins vegar.

Allir textar dagsins eiga það sameiginlegt að þeir fjalla um það verkefni okkar mannanna að gera vilja Guðs og það er sko verðugt verkefni.
———————
Síðustu daga hefur frelsið verið í brennidepli.
Við beindum sjónum okkar að frelsi þjóðarinnar og baráttu hennar fyrir sjálfstæði sínu á þjóðhátíðardaginn 17. júní og kvenfrelsi er vitaskuld þemað á Kvenréttindadaginn sem var í gær 19. júní.

Í guðspjalli dagsins segir Jesús: „Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gjöra vilja minn, heldur vilja þess er sendi mig.“

Það þótti róttæk guðfræði þegar konur fóru að ritskýra biblíuna út frá sjónarhóli kvenna. Sá sjónarhóll beindi m.a. athyglinni að því hvað trúararfurinn geymdi mikinn fjársjóð sem rennir stoðum undir baráttu fyrir kvenfrelsi og raunar frelsi allra manna.
Það er engum blöðum um það að fletta að í lærisveinahópi Jesú voru konur. Jesús átti marga vini sem voru konur, s.s. systurnar Mörtu og Maríu.
Og Jesús tók iðulega upp hanskann fyrir konur, fól þeim verkefni, varði þær og studdi hin kúguðu til að rísa upp og lifa með reisn. Þessar frásagnir N.t. hafa hjálpað mörgum til að finna nærandi rætur í kristinni arfleifð sem styrkja viðkomandi í að sækja fram og berjast fyrir hvers kyns mannréttindum.

Það eru ekki nema 47 ár síðan fyrsta íslenska konan var vígð sem prestur hér í Dómkirkjunni og síðan þá hefur konum í prestastétt fjölgað jafnt og þétt. Engu að síður eru margar konur hér á landi sem og annars staðar sem hafa upplifað það á vettvangi kirkjunnar að þær njóti ekki sömu velvildar og stuðnings og karlkyns prestar.
Og í raun og veru er sú saga ekki einungis bundin við kirkjuna heldur er það saga flestra starfstétta þar sem konur hafa farið inn á vettfang þar sem karlar störfuðu mestmegnis áður.

Sem dæmi um þetta má benda á að núna á föstudaginn var útvarpsviðtal við Jón Má Jónsson, yfirmann sérsveitar ríkislögreglustjóra þar sem kom fram að endurmeta þyrfti inntökuskilyrði inn í sérveitina því
af 39 sérsveitarmönnum er engin kona. Hann taldi að margar lögreglukonur á Íslandi ættu fullt erindi inn í sveitina en inntökuskilyrðin hafa einfaldlega verið þess eðlis að þau útiloka konur.
Mýmörg dæmi sýna að velgengni kvenna í atvinnulífinu er ekki í samræmi við það sem efni standa til.
Það er því ekki að undra að fyrir nokkrum árum skyldi vera gerð sjónvarpsauglýsing, þar sem kona gengur við hlið karlmanns á nútímalegum vinnustað og allt í einu rekst hún á ósýnilegan glervegg og hún kemst hvorki lönd né strönd. En það eru ekki aðeins glerveggir heldur einnig glerþök!

Það gladdi mig því að sjá hóp áhrifafólks í auglýsingu frá Kvenréttindafélagi Íslands í gær undir yfirskriftinni: „Vér mótmælum öll“ Og með þeim orðum var skorað á okkur öll að fjölga konum í áhrifastöðum og tryggja jafnrétti og fjölbreytileika í ákvarðanatöku á öllum sviðum samfélagsins til heilla fyrir land og þjóð.

En í gær var ekki aðeins kvenréttindadagurinn heldur voru þúsundir háskólanema að útskrifast með ýmsa lærdómstitla. Það er staðreynd að konur eru í miklum meirihluta þeirra sem stunda háskólanám hér á landi og eru einnig í meirihluta þeirra sem brautskrást. Enda þótt konur hafi haslað sér völl á flestum fræðasviðum þá ná þær ekki ennþá jafn langt á vinnumarkaði og laun þeirra allt til þessa hafa verið lægri en karla og munurinn hefur verið svo sláandi að stjórnvöld hafa gripið til þess átaks að vinna að jafnlaunavottun.
Ótal jafnréttiskærur hafa verið lagðar fram og margir dómar felldir. Engu að síður stýra konur innan við 10% af 400 stærstu fyrirtækjum landsins og í öllum þeim fyrirtækjum sem skráð eru í Kauphöll Íslands eru einungis karlar æðstu stjórnendur. Engin kona! Það liggur í augum uppi að þessi ósýnilega hindrun á frama kvenna í atvinnulífinu er ekki einungis slæm fyrir konur heldur samfélagið í heild sinni.
Kynjafræði er fyrir allnokkru orðið að fræðagrein sem hægt er að nema í háskóla.
Eitt af því sem kynjafræðin skoðar sérstaklega er hvernig stelpur og strákar eru mótuð af þeim væntingum sem gerðar eru til kynjanna. Margt bendir til að í uppeldi sé ýtt undir ákveðna eðlisþætti hjá stúlkum annars vegar og drengjum hins vegar. Í tilfelli kvenna er ýttu undir fórnfýsi, hjálpsemi og þjónustulund. Og í félagsmótun drengja er því miður alltof oft ýtt undir það sem kallað er „eitruð karlmennska“. Dæmi um slíka karlmennsku er: öfgafullt keppnisskap, tillitsleysi í garð annarra, yfirvald yfir öðrum, svo eitthvað sé nefnt. Því hefur
verið haldið fram að þessi félagsmótun geti haft neikvæð andleg áhrif á drengi.

Í íslenskri orðabók er karlmennska hins vegar sögð vera; „manndómur, hreysti, dugnaður, hugrekki“. Þetta eru sannarlega jákvæðir eðliskostir sem æskilegt er að allt fólk búi yfir hvert sem kyn þess er.

Ég minnist þess að hafa verið mjög hugsi fyrir nokkrum árum þegar ég hafði lesið um rannsókn sem leiddi í ljós að fólk hefði tilhneigingu til þess að eyða meiri peningum í gjafir og dót handa drengjum en stúlkum.
Minnist ég þess að í greininni kom fram að fermingarpiltar fengu miklu dýrari fermingargjafir en stúlkur. Á meðan stúlkur fengu bækur, skartgripi og skrautmuni fengu piltarnir oft háar peningaupphæðir.

Það að vera alin upp við það að bera meira úr býtum en systur þínar og frænkur hlýtur að ala á kröfum og hugmyndum um að þú eigir meira skilið en þær og þar með hærri laun síðar meir á lífsleiðinni!

Er þetta ekki mikið umhugsunarefni?

Guð sendi Jónas til Ninive til að prédika og til að leiða íbúum borgarinnar fyrir sjónir að þeir þyrftu að iðrast og taka nýja stefnu.
Barátta okkar fyrir sjálfstæði og frelsi er svo sannarlega löngu hafin og vissulega hafa margir áfangasigrar náðst. M.a. 19. júní 1915. En þessi misserin þurfum við að halda áfram að takast á við eftirleik Mee Too og það er líka nauðsynlegt að hafa augun opin fyrir því að ójafnréttið er ekki einungis á milli kynja heldur líka þjóðafélagshópa og það er líka staðreynd að fólki á vinnumarkaði hér á landi er því miður mismunað eftir því hvaðan það kemur. Sannleikurinn er sá að jafnréttisbaráttan er sístæð.

Jónas lét sig hafa það að fara til Nínive og telja íbúunum hughvarf.
Það er öllum samfélögunm hollt að fá í heimsókn fólk með spámannlega andagift sem hristir upp í íbúunum svo þeir verði ekki samdauna þeirri ómenningu sem hefur tilhneigingu til að grafa um sig í öllum bæjum og borgum og samfélögum sem til eru undir sólinni.
Við þurfum bara að hafa löngun til að leggja við hlustir og hafa augun opin, vera fús til að iðrast og sýna yfirbót eins og íbúar Ninive forðum.
Því þeir sem eru sannir sendiboðar Guðs koma aðeins til að gera vilja þess er sendi þá. Og þá getum við líka af heilu hjarta tekið undir orð frelsishetjunnar góðu: „Vér mótmælum öll.“

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda um aldir alda. amen.

Laufey Böðvarsdóttir, 21/6 2021 kl. 13.37

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS