Dómkirkjan

 

En nú segir Drottinn svo sá sem skóp þig, Jakob, og myndaði þig, Ísrael: Óttast þú ekki því að ég frelsa þig, ég kalla á þig með nafni, þú ert minn. (Jes. 43.) Mig minnir að Linus, frekar en Snoopy segi við Kalla Bjarna: “Hugsaðu þér að einn daginn deyjum við.” Kalli svarar: “Já, en hugsaðu; alla hina dagana deyjum við ekki.” Það er svo háð viðhorfi okkar hvernig við komumst í gegnum erfiðleikana. Vissulega er það svo að í skugga pestar og einangrunar er enginn vandi að fyllast svartsýni og bölmóði. Það að standa frammi fyrir ógnvænlegum aðstæðum fær mann til að líta svo á tilveran sé brothætt og fallvölt. En við höfum líka val um að einbeita okkur að því sem byggir upp og gleður; og þiggja lífsþróttinn úr hendi hans sem hefur jú skapað okkur og myndað. Lífið verður fyrst raunverulegt þegar það hættir að vera sjálfsagt. Lífið er gjöf. Frá Guði, og ber að skoðast í því ljósi. Og ef við veltum ferðalokunum fyrir okkur þá hygg ég að óhætt sé að treysta Guði fyrir því að hafa eitthvað það í hyggju fyrir okkur sem er langt umfram það sem við óskum eða væntum. Því getum við lagt líf okkar og hvaðeina í hans hendur. Ef útí það er farið; Það er bara ekki enn komið að því að hyggja að slíku; Í dag lifum við. Sem betur fer lítur út fyrir að pestin sé í rénun; takmarkið framundan. Mig langar samt að rifja upp hvatningu sem ég fékk á leikjanámskeiðinu Íþróttir og Útilíf á Kársnesinu sumarið 1975. Ég var í kapphlaupi og hægði á mér nokkru framan við markið en leiðbeinandinn kallaði þá: „Keyra í gegn! Þú getur hvílt þig á eftir.” Ekki svo sem frumlegt en samt mikilvægt að festa sér í minni. Höldum einbeitingunni og klárum dæmið. Munum enn fremur hvers við eum. Við erum Hans sem skapaði okkur og myndaði og vill velferð okkar sem mesta. Guð vaki yfir þér með blessun sinni. Séra Sveinn Valgeirsson.

Laufey Böðvarsdóttir, 8/11 2020 kl. 20.57

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS