Dómkirkjan

 

Þær mæðgur Anna Þrastardóttir og Hrönn Marinósdóttir lásu ritningarlestrana við messun á sunnudaginn. Prédikun Karls Sigurbjörnssonar, biskups í Dómkirkjunni 19. nóvember

23755219_10155836110085396_1644574754573786102_n-1Byrðarnar og hvíldin
Byrðarnar og hvíldin. Prédikun í Dómkirkjunni, 19. nóv. 2017
Jes 66.10-13; Opinb.15.2-4; Matt 11.25-30

Erfiði. Byrðar. Og að vera borinn. Það eru lykilorð í textum dagsins. Og fyrirheit um huggun og hvíld. „Brjóstmylkingar hennar verða bornir á mjöðminni og þeim hossað á hnjánum“ segir lexía dagsins. Lexían er huggunarorð Guðs til fólks sem fannst það vera á heljarþröm, guðifirrt og vonlaust. Hann endar með því að segja: „Eins og móðir huggar barn sitt, eins mun ég hugga yður…“ Og guðspjallið eru orð Jesú um byrðar okkar og hvíldina sem hann heitir: „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.“ Huggunarorð, sefandi, líknandi huggunarorð. Ó, hvað maður þarf á því að halda!
Skjótt skipast veður í lofti. Ein nótt er ei til enda trygg. Sorgin gleymir engum –. Þessi orðtök eru engar klissjur, við þekkjum þetta öll. Óvænta símtalið frá lækninum sem staðfesti ónotalegan grun og raskar öllum áformum. Slys og allskyns ófarir og sorgirnar sem sækja okkur heim í dagsins önn. Svo eru byrðar hversdagsins svo margvíslegar, allskyns áhyggjur og kvíði sem alltaf eru til staðar og minna á sig. Jú, við erum mörg erfiði og þunga hlaðin þó að það sé sjaldnast sýnilegt né heldur ýkja dramatískt.
Oft er mér hugsað til þess stóra hetjuhers fólks sem axlar þungar byrðar sjúkdóma og áfalla af óskiljanlegu æðruleysi, lætur ekki bugast, og – það sem meira er – megnar jafnvel að gefa af sér, vera ástvinum og samferðarfólki sínu til hughreystingar og miðla öðrum uppörvun og kjarki. Þetta hefur maður oft séð og reynt og er fyrirmunað að skilja. Ertu ekki sammála mér um að oft mætir maður einmitt mestu æðruleysi og sálarstyrk einmitt hjá raunabörnunum? Oft þar sem þess var síst að vænta. Það er mikill leyndardómur. Og þó.
Memento mori sögðu menn hér áður fyrr, mundu að þú munt deyja. Og menn sögðu líka: Carpe diem, gríptu daginn. Hvort tveggja er latína og upphaflega var eitt forsenda annars, að sá einn sem væri sér meðvitaður um endanleikann, forgengileikann, dauðann gæti notið lífsins til fulls. Nú til dags höfum við ýtt memento mori út og erum einungis upptekin af því að lifa í núinu og grípa daginn. Svo ótal margt í menningu okkar og samfélagi ber vott um afneitun dauðans og þöggun þess sem minnir á hann. Kristnin með orð sín og von um eilíft líf er sökuð um afneitun lífsins. Nei, hin kristna upprisuvon sprettur af lífi og krossdauða Jesú Krists, hún byggir á trú á lífið, líf fyrir dauðann og líf í dauða og horfist í augu við hann í hugrekki og æðruleysi. Hin guðvana tómhyggja býður ekki upp á aðra von en að slá dauðanum á frest. Ég myndi sem kristinn maður vilja halda fast í hvort tveggja memento mori og carpe diem. Og bæta við: Leggjum hvort tveggja í hendur Guðs. Sem er Guð lífsins og lifenda og í honum lifum við, erum og hrærumst.
„Ég mun veita yður hvíld,“ segir Kristur. Og það er ekki aðeins hvíldin fyrir handan, sem hann á við, hin eilífa hvíld og eilífa ljós. Hann tók á sig okkar líf, okkar mein og synd og dauða. Dagurinn er hans. Líka nóttin, jafnvel í myrkrinu er hann. Framtíðin er í hendi hans, þú ert hans. Þiggðu andartakið, daginn, stundina af honum og hvíldu í hendi hans. Eins og segir í bæninni: Drottinn, hjálpa mér að trúa að engin atvik, engar aðstæður, engar ógöngur séu slíkar að þaðan sé ekki fært til þín.
„Komið til mín öll“ segir Kristur. Öll.
Það er undarleg og þverstæðukennd staðreynd að í samtíð okkar þar sem vinnutími er skemmri en nokkru sinni, fríin lengri og með meiri möguleikum á upplyftingu, allskyns tæki og tækni sem létta störfin og lífið, afþreying auðveldari og í meira úrvali en nokkru sinni fyrr, öryggisnet samfélagsins þrátt fyrir allt yfirleitt býsna sterkt, þar líði fólki almennt ekki betur en raun ber vitni. Fólk sem glöggt rýnir í rúnir samtímans nefnir öldin okkar angistaröld og kvíðaöld. Já, og öld reiðinnar. Skyldi vera samhengi þarna á milli? Þetta virðist allt bera að sama brunni. Kvíðaröskun hrjáir fjölda barna á Íslandinu góða, ótrúlegan fjölda barna, barna sem aldrei hafa þurft að finna til svengdar, eiginlega aldrei orðið kalt, aldrei þreytt af vinnu eða af því að þurfa ganga langan veg til og frá skóla eins og við munum svo mörg eftir frá okkar bernsku, aldrei verið ógnað af alvöru háska, aldrei þurft að leiðast – á ég að halda áfram? – En líður samt illa á sálinni. Og það þrátt fyrir öll undra-geðlyfin, sem við Íslendingar notum í meira mæli en nokkur önnur þjóð. Sem og hin rafræna afþreying, – sítengd athyglin og digital umhyggjan af öllu tagi sem er alltaf innan seilingar. Samfélagsmiðlarnir, facebook, instagram, snapchat, hvað sem þetta heitir, gefa manni innsýn inn í líf og heim annarra, og það er oft hið vel heppnaða líf og fullkomni heimur; hamingja, farsæld, afrek annarra. Einlægt aukast væntingarnar um hið fullkomna, þægilega, áfallalausa líf. Byrðar lífsins, erfiði og þungi er álitið eitthvað óeðlilegt sem og sjúkdómar, áhyggjur, óveður og hamfarir náttúrunnar, já og dauðinn. Tæknifeill. Lífsþróttur og gleði er falboðin á heimsmarkaðnum og er einn drifkraftur hagkerfisins. Hreysti, hamingja, lífsgleði, hvíld – það er allt til sölu og gífurlegur gróðavegur, sem ótal iðngreinar og tækni og makalaust ábatasöm viðskipti ganga út á, lyfjaiðnaður og skemmtanaiðnaður sem á sér enga hliðstæðu í gjörvallri sögu mannkynsins. Einu sinni var gengið út frá því að menn leiti hamingjunnar sér og öðrum til góðs, en í dag segja menn að það sé réttur manns að vera hamingjusamur, hvað sem það kostar. Og sú réttindakrafa gengur gegnum alla menningu okkar. Og ófullnægjan eykst, ágirndin, öfundin, kvíðinn. Helstu mein okkar daga. Andleg óáran.

Lífið er lán. Heilsan er lán. Allt hið mikilvægasta í lífinu er okkur léð til að þiggja. Ekki réttur til að krefjast af öðrum, mönnum og máttarvöldum þessa heims og annars. Heldur lán, gæfa, náð. Allt er náð.
Á grísku nefnist hamingja evdaimonía. Orðið daimon merkir sál eða andi, en líka jafnvel demón. Ef til vill má þýða orðið svo að lifa við, eða jafnvel vera sáttur við sinn innri mann, þar með talinn sinn innri demón, – og annarra. Horfast í augu við, takast á við, af æðruleysi, kjarki, viti. Enginn getur samt verið í góðu formi og fullri sátt við sinn innri mann og umhverfi sitt allar stundir. Enginn getur komist hjá sársauka, mistökum, vonbrigðum, sorg, skuggunum í lífinu. Ef menn útiloka það, bæla, þagga, þá missa menn áttanna. Hamingja er ekki fullkomnun, ekki takmark heldur vegur, leið, gegnum lífið og allt sem á vegi verður. Líka það örðuga og sára, mislukkaða, ófullkomna. Og vita að maður er þar aldrei einn.
„Komið til mín, þið öll“ – segir Jesús, „ég mun veita yður hvíld.“
Hvað á hann við?
Hvíld bænarinnar, trúarinnar. Hvíld umhyggjunnar. Já, umhyggjunnar.
Vegna þess að þegar sjálfhverfan ræður för þá lokum við á Guð, þegar við reiðum okkur aðeins á eigin mátt og megin þá lokum við á mátt Guðs og ljós. En þegar við opnum huga og hjarta fyrir öðru fólki ljúkum við upp fyrir Guði.
„Ég mun veita yður hvíld,“ segir Jesús. Og það felst ekki í því að við sleppum frá öllum byrðum og vanda lífsins, heldur að við tökum á okkur annars konar byrði. „Takið á yður mitt ok,“ Segir Jesús: „Mitt ok er indælt og byrði mín létt.“ Hvað merkir það? Það var einu sinni fermingarbarn sem las þetta guðspjall í messu og las: „Takið á yður mitt ókei!“ Hún skildi ekki orðið ok, sem er ekki von, það er nokkuð sem er tengt horfnum heimi og atvinnuháttum. Á dögum Jesú voru dráttardýr bundin undir sama oki til að tryggja það að þau drægju hlassið eða plóginn í sömu átt með samstilltu átaki. Jesús er að tala um krossinn. Og það er byrði kærleikans, umhyggjunnar. Undir þeirri byrði gleymir maður nefnilega sjálfum sér. Að taka á sig ok Jesú merkir þá að fara í sömu átt og hann, að sækja styrk til hans í átökum daganna til að bera byrðarnar. Ok hans er ok umhyggjunnar, band kærleikans,. Hann axlaði byrðarnar í minn stað og þinn. Heimsins harm, mein og sár, sjálfan dauðann. Fyrir þig.
Byrðarnar, erfiðið og þungu byrðarnar, ok kærleikans.
Gömul saga segir frá tveimur konum sem gengu saman við sólarlag. Önnur var öldruð hin var ung. Þær voru þreyttar og uppgefnar því þær báru þungar körfur með eldiviði sem þær höfðu safnað um daginn. Unga konan sneri sér hugsandi að þeirri gömlu og spurði hana: „Ég var að hugsa…. Hvaða byrði skyldi vera þyngst allra í lífinu?”
Gamla konan þagði við og horfði hugsi fram á rykugan, grýttan veginn. Svo svaraði hún með hægð: „Að hafa alls enga byrði að bera.”
Þetta er það sem Kristur býður fram, byrði kærleikans, umhyggjunnar, samkenndarinnar. Það er krossinn hans, baðaður birtu upprisunnar. Og hann breiðir út faðminn mót þreyttum og þjáðum og segir: „Komið til mín, öll þér sem erfiði og þunga eruð hlaðin. Ég mun veita yður hvíld.“

Laufey Böðvarsdóttir, 20/11 2017 kl. 19.08

     

    Kirkjustræti, 101 Reykjavík.. Sími 5209700 , fax 5209701 · Kerfi RSS